Finna ekki til sársauka

Margir af íbúum í sænska bænum Gällivare finna ekki til sársauka. Vísindamenn segja að ástæðan sé væntanlega of mikill skyldleiki fólksins. Um 40 manns, einkum þó börn, hafa greinst með þennan sjúkdóm, sem stafar af arfgengum galla í litningi sem veldur því að af því að taugakerfið þroskast ekki rétt.

Blaðið Norrländska Socialdemokraten í Uppsölum í Svíþjóð skýrir frá þessu en Jan Minde, yfirlæknir á sjúkrahúsinu í Gällivare mun í næstu viku verja doktorsritgerð, sem fjallar um rannsóknir hans á sjúkdómnum, sem staðið hafa í 10 ár.

Minde segir í samtali við blaðið, að drengur hafi fótbrotnað við að falla niður af vegg en fann ekkert fyrir brotinu. Þá segir hann að stúlka hafi leikið sér að því að hoppa úr um 2 metra hæð og lenda á hnjánum. Henni hafi þótt skemmtilegt að heyra hljóðið í hnéskeljunum, þegar hún lenti, og það fannst vinum hennar einnig, en stúlkan fann ekki fyrir neinu.

Minde segir að sjúkdómurinn leggist einkum á neðri hluta fótanna og hafi valdið örkumlum sem reynt hafi verið að laga með skurðaðgerðum og jafnvel gervilimum.

Frétt Norrländska Socialdemokraten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka