Eyþór Arnalds dregur sig úr kosningabaráttunni

Eyþór Arnalds
Eyþór Arnalds

Eyþór Arnalds, efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg, segist í yfirlýsingu harma innilega það atvik sem átti sér stað sl. nótt þegar hann var tekinn við ölvunar­akstur. Slíkt hafi aldrei hent áður. Hefur Eyþór ákveðið að draga sig úr kosningabaráttunni en muni hann ná kjöri þá ætlar hann að taka sér frí frá störfum sem bæjarfulltrúi í Árborg á komandi kjörtímabili meðan á málinu stendur. Jafnframt ætli hann sér að fara í áfengismeðferð.

Að loknum fjölmennum fundi sem stóð í um fjórar stundir í Valhöll í gærkvöldi, þar sem m.a. voru frambjóðendur flokksins í Árborg, ýmsir fulltrúaráðsmenn og forystumenn flokksins, las Eyþór eftirfarandi yfirlýsingu:

„Ég harma innilega það atvik sem átti sér stað sl. nótt þegar ég var tekinn við ölvunar­akstur. Slíkt hefur aldrei hent mig áður en er engu að síður óafsakanlegt. Með þessu brást ég trausti samflokksmanna minna, stuðningsmanna, fjölskyldu og þeirra kjósenda sem ég leita eftir stuðningi hjá. Þessa iðrast ég af heilum hug og bið afsökunar á.

Í framhaldi af þessum atburði hef ég, í samráði við samstarfsmenn mína í Árborg og forystumenn Sjálfstæðisflokksins, ákveðið að axla ábyrgð og draga mig út úr kosninga­baráttunni. Nái ég kjöri mun ég að auki taka mér frí frá störfum sem bæjarfulltrúi í Árborg á komandi kjörtímabili meðan á málinu stendur og ég tek út mögulega ökuleyfis­sviptingu eða aðra refsingu, eins og lög segja til um.

Um þessa niðurstöðu er full samstaða í frambjóðendahópi Sjálfstæðisflokksins í Árborg sem áfram mun vinna ótrauður að sigri Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 27. maí.

Ég tel að áfengi hafi brenglað dómgreind mína með alvarlegum afleiðingum og hef í kjölfar þessa atburðar ákveðið að fara í áfengismeðferð."

Eyþór svaraði síðan spurningum fréttamanna og lýsti atvikum. Hann kvaðst hafa verið í sextugsafmæli og drukkið áfengi með mat og síðan ekið á staur. Atvikið hafi orðið á hraðbraut svo þau lögðu bílnum í nálægt stæði á Kleppsvegi og könnuðu skemmdir. Þar kvaðst Eyþór hafa látið af stjórn bílsins og farþeginn tekið við. Þau héldu síðan ferðinni áfram þar til lögreglan stöðvaði þau í Ártúnsbrekku. Eyþór kvaðst ekki hafa náð að tilkynna atvikið þegar lögregla hafði upp á þeim og handtók. Hann kvaðst hafa játað brot sitt og mundi taka út refsingu eins og lög gera ráð fyrir.

„Þetta er aukarefsing, sem við töldum eðlilega og ég hafði frumkvæði að að taka," sagði Eyþór um ákvörðun sína. Hann sagði þetta vera hörmulegt atvik sem að sjálfsögðu myndi skaða Sjálfstæðisflokkinn í Árborg, en hann vildi leggja sitt litla lóð á vogarskálarnar, biðjast afsökunar og taka á sínum málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert