Skipt á van Nistelrooy og Eiði Smára?

Eiður Smári Guðjohnsen er á ný orðaður við Manchester United …
Eiður Smári Guðjohnsen er á ný orðaður við Manchester United í dag. AP

Enska dagblaðið News of the World fullyrðir í dag að Chelsea vilji fá Ruud van Nistelrooy frá Manchester United í sínar raðir og Eiður Smári Guðjohnsen, landsliðsfyrirliði Íslands, gæti farið til United í staðinn.

Blaðið kveðst hafa öruggar heimildir fyrir því að Peter Kenyon, framkvæmdastjóri Chelsea, hafi hitt Rodger Linser, umboðsmann Hollendingsins, í París síðasta miðvikudag og þar hafi verið gengið frá samningsmálum van Nistelrooys gagnvart Chelsea.

Þá er sagt að Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, vilji að van Nistelrooy verði seldur til félags utan Englands en kunni að skipta um skoðun ef hann gæti fengið Eið Smára í staðinn.

Vitnað er í ónafngreindan heimildamann í röðum Chelsea sem segir: „José Mourinho mun breyta skipulagi liðsins í heild ef hann nær í van Nistelrooy og Andriy Shevchenko. Með því myndi hann ekki aðeins skelfa allt England heldur alla Evróup í leiðinni."

Shevchenko er að hugsa sín mál og hyggst hitta Adriano Galliani, forseta AC Milan, áður en hann ákveður hvort hann taki boði Chelsea um að flytja sig yfir til Englands. Didier Drogba vill fara frá Chelsea og umboðsmaður hans kveðst gera sér vonir um að hægt verði að skipta á honum og Shevchenko.

Sjá einnig enski.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka