Tveimur refsiföngum sleppt úr gæsluvarðhaldi

Gæsluvarðhaldi yfir tveimur refsiföngum á Litla-Hrauni hefur verið aflétt en þeim var gert að sæta gæsluvarðhaldi að kröfu lögreglu vegna rannsóknar á innflutningi fíkniefna inn í fangelsið. Héraðsdómur Suðurlands hafði úrskurðað mennina í gæsluvarðhald til klukkan 16 á morgun en lögreglan á Selfossi segir, að rannsóknarhagsmunir hafi ekki krafist þess lengur að þeir væru í gæsluvarðhaldi.

Fangavörður hefur játað að hafa gegn peningagreiðslu, í alls átta skipti, frá því hann hóf störf við sumarafleysingar s.l. vor, flutt fíkniefni inn í fangelsið. Manninum, sem er um tvítugt, var sleppt úr gæsluvarðhaldi sl. þriðjudag.

Lögreglan í Árnessýslu hefur yfirheyrt 5 einstaklinga sem hafa allir viðurkennt að hafa afhent fangaverðinum fíkniefni til að flytja inn í fangelsið. Þessir menn hafa allir komið við sögu fíkniefnamála áður og þrír þeirra eru fyrrum refsifangar í fangelsinu.

Þegar fangavörðurinn var handtekinn sl. laugardag var hann með um 250 grömm af ætluðu hassi og um 35 grömm af ætluðu amfetamíni. Lagt var hald á tiltekna peningaupphæð á sérstökum bankareikningi fangavarðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert