Einar Hólmgeirsson ekki með á HM?

Einar Hólmgeirsson leikur vart með íslenska landsliðinu í handknattleik á …
Einar Hólmgeirsson leikur vart með íslenska landsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu eftir að hann meiddist illa í kappleik með Grosswallstadt á næst síðasta degi ársins. mbl.is/Árni Torfason

Einar Hólmgeirsson leikur að öllum líkindum ekki með íslenska landsliðinu í handknattleik á heimsmeistaramótinu sem hefst í Þýskalandi 20. janúar. Einar sleit liðbönd í þumalfingri á vinstri hendi snemma leiks Grosswallstadt og Kiel í þýsku 1. deildinni í handknattleik á næst síðasta degi ársins. Flest bendir til þess að Einar verði að fara í aðgerð til þess að fá bót meina sinna. Komi til þess þá verður hann frá keppni í þrjá mánuði.

Þetta er mikið áfall fyrir Einar og einnig íslenska landsliðið sem á morgun hefur undurbúning sinn fyrir heimsmeistaramótið. Hin örvhenta skytta íslenska landsliðsins, Ólafur Stefánsson, hefur einnig glímt við erfið meiðsli á öxl sem ekki mun séð fyrir endann á ennþá. Haft er eftir Michael Roth, þjálfara Grosswallstadt, á vefnum handball-world að Einar hafi verið svo slæmur eftir leik Grosswallstadt og Kiel á laugardag að hann gæti t.d. ekki haldið á handbolta. Einar er kominn til Íslands og samkvæmt heimildum mbl.is þá mun hann hitta Brynjólf Jónsson, lækni íslenska landsliðsins, í dag þar sem í ljós mun koma hversu alvarleg meiðslin eru.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert