VG fagnar samstöðu gegn klámráðstefnu

Frá landsfundi VG, sem nú stendur yfir á Grand hóteli.
Frá landsfundi VG, sem nú stendur yfir á Grand hóteli. mbl.is/ÞÖK

Í ályktun, sem samþykkt var á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs í dag, er fagnað þeirri einörðu samstöðu sem kom í ljós þegar klámframleiðendur hugðust standa fyrir ráðstefnu á Íslandi í mars. Ályktunin er undir yfirskriftinni Frelsum ástina - höfnum klámi.

Í ályktuninni segir að samstaðan hafi verið hafin yfir pólítíska flokkadrætti, bandalög, vinahópa og hugmyndafræðileg átök og samfélagið hafi tekið undir með kvennahreyfingu undanfarinna alda og risið upp og mótmælt klámvæðingu af krafti.

„Órjúfanlegt samhengi ríkir milli kláms, vændis og annars kynferðisofbeldis. Enginn á að þurfa að taka þátt í kynferðislegum athöfnum gegn vilja sínum. Einstaklingur sem starfar í klámiðnaðinum vegna neyðarinnar einnar og/eða gegn vilja sínum er því beittur kynferðisofbeldi. Ljóst er að sú er raunin með stóran hluta þeirra sem starfa í klámiðnaðinum.

Klámvæðingin hefur auk þess ótvíræð neikvæð áhrif á samfélagið og hegðan einstaklinga innan þess. Rannsóknir kynjafræðinga hafa sýnt fram á sterkt samband milli neyslu kláms og ofbeldis gagnvart konum og börnum. Í kjölfar klámvæðingarinnar eru nauðganir orðnar grófari og hópnauðganir alvarlegri, í fullu samræmi við þróun klámvæðingarinnar," segir m.a. í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka