Götubardagar á Norðurbrú

AP

Götubardagar hafa brotist út milli mótmælenda og lögreglu á Norðurbrú í Kaupmannahöfn og hafa mótmælendur kastað grjóti, ruslatrogum og flöskum að lögreglu. Mikill mannfjöldi hefur safnast saman á Nørrebrogade en henni hefur lögregla lokað. Þá hafa borist fregnir af því að mótmælendur hafi sett upp vegatálma og kveikt í á Kristjánshöfn við Kristjaníu, en þar hefur lögregla ekki haft viðbúnað.

Berlingske Tidende segir þýskan mótmælanda hafa verið lagðan inn á ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn eftir bardagana. Ekki hefur þó komið til stórfelldra átaka en mótmælendurnir hafa sett upp vegatálma og víða rýkur úr rusli sem kveikt hefur verið í.

Mörgum skólum og leikskólum hefur verið lokað í hverfinu af ótta við óeirðir og fylgjast dönsk yfirvöld grannt með landamærum, en óttast er að erlendir róttæklingar séu á leið til Danmerkur til að aðstoða við baráttuna um Ungdómshúsið.

Lögregla heldur mikinn vörð við húsið og mun vera þar að störfum. Rýmingin er þó almennt sögð hafa gengið hratt og örugglega fyrir sig og er þar talið hafa skipt máli að íbúar ungdómshússins hafi ekki verið undirbúnir undir aðgerðirnar í morgun. Lögreglan líkir þó viðbrögðum mótmælenda eftir að húsið var rýmt við hernaðarlega nákvæmni, enda höfðu viðbrögðin verið skipulögð nákvæmlega fyrir nokkru síðan.

Fjöldamótmæli hafa verið skipulögð á Norðurbrú síðdegis í dag, en þá munu eigendur hússins, söfnuðurinn Faderhuset, taka ákvörðun um það í dag hvort húsið verður rifið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka