Segir Ísland hafa verið boðið á lista yfir hinar staðföstu þjóðir

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, vitnaði á Alþingi til gamals viðtals við Davíð Oddsson sem hann sagði sýna, að íslensk stjórnvöld hefðu fengið formlegt tilboð frá Bandaríkjastjórn um að fara á lista yfir hinar svonefndu staðföstu þjóðir og ákvörðun hefði verið tekin um að taka því boði.

Ögmundur sagði, að formaður Framsóknarflokksins hefði sagt í umræðu á þinginu að umræddur listi væri ekkert annað en fréttatilkynning úr Hvíta húsinu sem væri einhliða tilbúin af Bandaríkjastjórn. Varaformaður flokksins hefði sagt að Íslendingar hefðu verið misnotaðir af Bandaríkjastjórn.

Ögmundur sagði hins vegar, að ýtarlegt viðtal hefði birst í DV í mars 2003 við Davíð Oddsson þar sem hann segi m.a. annars, að Bandaríkjastjórn hafi verið fullkunnugt um staðfastan stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar við fyrirhugaðan hernað. „Þegar við fengum boð um að fá að vera í hópi hinna staðföstu bandalagsþjóða, svikumst við að sjálfsögðu ekki undan merkjum," las Ögmundur upp úr viðtalinu við Davíð.

Ögmundur sagði óumflýjanlegt að þessar upplýsingar liggi fyrir í þinggögnum. Bað hann Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að staðfesta að þarna væri haft rétt eftir forvera hans.

Geir sagði að fyrir lægi að Íslendingar hefðu heimilað yfirflug og lendingar og veitt 300 milljónir til uppbyggingar í Írak. Geir sagðist ekki vita nákvæmlega um hvernig staðið var að gerð lista yfir hinar staðföstu þjóðir enda skipti það harla litlu máli nú árið 2007. Íslendingar hefðu látið það átölulaust, að þeir væru á þessum lista ásamt mörgum vina- og bandalagsþjóðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert