Fyrsti súrálsfarmurinn kominn til Reyðarfjarðar

Pine Arrow kom með 39 þúsund tonn af súráli frá …
Pine Arrow kom með 39 þúsund tonn af súráli frá Ástralíu. mlb.is/Steinunn

Fyrsti súrálsfarmurinn er kominn til Reyðarfjarðar. Tæplega 200 metra langt, 48 þúsund tonna flutningaskip, Pine Arrow, flutti farminn frá Ástralíu og var 44 sólarhringa á leiðinni. Súrálsfarmurinn sem landað verður er 39 þúsund tonn sem reiknað er með að dugi til framleiðslu á 20 þúsund tonnum af áli og talið er að fyrsta kerið verði gangsett í nýju álveri Alcoa í Reyðarfirði um páskana.

Erna Indriðadóttir talsmaður Alcoa á Íslandi sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að það tæki langan tíma að gangsetja öll 336 kerin í álverinu en taldi að þau yrðu öll komin í gagnið um næsta haust.

Búast má við 20 súrálsskipum, þó með eitthvað stærri farma að jafnaði, árlega til Reyðarfjarðar eftir að álverið kemst í gagnið. Gangsetning alls álversins tekur 6-7 mánuði og það mun framleiða um 346 þúsund tonn af áli í fullum rekstri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert