„Brýnt að skapa háskólum fjárhagsleg skilyrði til vaxtar"

Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri
Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri mbl.is/Skapti

Háskólar á Íslandi sitja ekki við sama borð gagnvart stjórnvöldum, sagði Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, við brautskráningu kandidata í dag. Þorsteinn sagði einkaháskólana njóta mun meira fjárhagslegs frelsis en opinberir háskólar. Þessi mismunun sé afar sérstæð og þekkist slíkt óréttlæti vart í nálægum löndum.

Þorsteinn sagði brýnt að skapa háskólum fjárhagsleg skilyrði til áframhaldandi vaxtar. Auknar fjárveitingar þurfi að koma, frá ríkisvaldinu, atvinnulífinu í landinu, alþjóðlegum uppbyggingarsjóðum og að einhverju leyti frá nemendum sjálfum. Hins vegar ættu stjórnvöld ekki að freistast til að innheimta skólagjöld í grunnámi við opinbera háskóla hér á landi. Mikilvægt sé að opinberir háskólar verði áfram opnir nemendum án tillits til efnahags, stöðu og búsetu.

Þorsteinn sagði Háskólann á Akureyri vera reiðubúinn til fullrar samvinnu við stjórnvöld um þau brýnu og mikilvægu verkefni að draga úr þeirri mismunun sem byggst hafi upp milli einkaháskóla og opinberra háskóla í landinu.

Í ræðu sinni benti Þorsteinn á þær miklu breytingar, sem orðið hafa á Akureyrarbæ í nærri 20 ára sögu skólans og hvernig Háskólinn á Akureyri hefði átt stóran þátt í að snúa við þeirri óheillastöðu, sem bærinn var í þegar skólinn tók til starfa. Þá hafi atvinnuleysi verið mikið og fólksflótti frá Akureyri.

Háskólinn hafi reynst Akureyri og Norðurlandi öllu mikil lyftistöng, verið aflstöð nýrra hugmynda og leiðarljós uppbyggingar á landsbyggðinni. Samfélagshlutverk háskóla verði seint ofmetið, þeim sé ekki eingöngu ætlað að þjóna fræðunum, heldur einnig langtímahagsmunum samfélagsins alls. „Starf háskóla hlýtur að miða að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti. Í hafsjó aukinna upplýsinga og ólgusjó alþjóðavæðingar trúi ég því að háskólar eigi afar stórt hlutverk fyrir höndum í því að veita samfélaginu leiðsögn og skapa því festu,“ sagði Þorsteinn.

Hann kvað nauðsynlegt að öflugir opinberir háskólar séu starfræktir á Íslandi, annars vegar til þess að fullnægja kröfunni um jafnrétti til náms og hins vegar til þess að gegna hinu ríka samfélagshlutverki sem háskólar einir geti gegnt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert