Reykjaneshryggur rannsakaður í fyrsta sinn í 40 ár

Það er ekki oft sem leiðangursskip liggja við Reykjarvíkurhöfn en eitt slíkt lá við bryggju í dag. Þetta er skipið R/V Knorr frá Woods Hole Oceanographic Institute sem er að leggja af stað í stóra viðamikla alþjóðlega rannsókn á Reykjaneshrygg og hafsbotninum sunnan af Íslandi.

Verkefnið hlaut um eitt hundrað milljón króna styrk frá National Science Foundation (www.nsf.gov) í Bandaríkjum Norður Ameríku og er ennfremur styrkt af vísindasjóði Háskóla Íslands.

Skipið sjálft er sérhannað til jarðfræðilegra rannsókna og tók meðal annars þátt í leit að Titanic á sínum tíma. Um borð eru 32 vísindamenn og 2 tæknimenn ásamt áhöfn. Heil 40 ár eru frá því að jarðfræðirannsókn Reykjaneshryggjar fór síðast fram með nákvæmum hætti og hljóta því margir að spyrja sig hvers vegna svo langur tími líði á milli ítarlegra rannsókna á hryggnum og hafsbotninum á svæðinu.

Ármann Höskuldsson, sem fer fyrir leiðangrinum fyrir hönd Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, segir margar ástæður fyrir því hversu langur tími er síðan Reykjaneshryggur var síðast kannaður. Rannsóknir af þessum toga séu afar kostnaðarsamar og einnig hefur tækninni fleygt fram.

Ármann segir gloppur hafi verið í upplýsingum sem til eru um landgrunnið frá Íslandi og að 62 breiddargráðu. Hann segir að nú verði þyngd bergsins og segulmagn botnsins mæld og þær upplýsingar nýtist til að skilja betur jarðfræðilegt samhengi Íslands og það náttúrufyrirbæri sem samspil heita reitsins sem Ísland liggur á og Atlantshafshryggsins er.

Á meðan á rannsóknirnar standa verður opin heimasíða þar sem almenningur jafnt og sérfróðir geta fylgst með framgangi þeirra.

Rannsóknarleiðangur á Reykjaneshrygg

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert