Þriðja kynslóð farsímakerfisins tekin í notkun

Síminn tók þriðju kynslóð farsímakerfisins (3G) í notkun í dag. Meðal helstu nýjunga eru myndsímtöl þar sem viðmælendur geta séð hvorn annan meðan á samtali stendur, móttaka sjónvarpsútsendinga og streymi myndefnis í farsímann. Í fyrstu nær þjónustan einungis til höfuðborgarsvæðisins.

Þá má jafnframt nota til að nettengja fartölvur með meiri gagnahraða en áður hefur verið í boði.

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Símans, tók kerfið formlega í notkun í dag. Um leið kynnti hann ásamt Kristni Jóni Bjarnasyni, framkvæmdastjóra Félags heyrnarlausra, samstarfssamning sem felur í sér að allir meðlimir félagsins auk heyrnarlausra grunnskólabarna á höfuðborgarsvæðinu fái 3G síma sér að kostnaðarlausu.

Myndsímtöl með 3G gera heyrnarlausum í fyrsta sinn kleift að tala saman á táknmáli í gegnum farsíma en hingað til hafa farsímar einungis nýst þeim til SMS-sendinga. Þessi þjónusta hefur verið mikið notuð meðal heyrnarlausra þar sem 3G hefur verið tekið í notkun erlendis.

Brynjólfur afhenti einnig Fanney Ingólfsdóttur hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra þrettán 3G síma sem táknmálstúlkar munu nota við þjónustu sína við heyrnarlausa og heyrnarskerta. 3G væðing táknmálstúlka þýðir að í stað þess að heyrnarlausir þurfi að mæta í Samskiptamiðstöðina til að njóta aðstoðar túlka við símtöl eða hafa túlk meðferðis við erindagjörðir sínar geti þeir nú hringt í Samskiptamiðstöðina og fengið túlkun í gegnum myndsímann.

Viðskiptavinir sem vilja nýta sér 3G þjónustu Símans geta nálgast nýtt símkort í öllum verslunum fyrirtækisins á höfuðborgarsvæðinu.

Farsíminn þarf að vera 3G samhæfður, en upplýsingar um hvaða símategundir ráða við 3G má m.a. finna á vef Símans, www.siminn.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert