Össur: Gríðarlegur áhugi á samstarfi Indónesa og Íslendinga

Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu, með konu sinni, Kristiani Herawati.
Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu, með konu sinni, Kristiani Herawati. AP

Mikill áhugi kom fram á samstarfi Íslendinga og Indónesa í orku-, iðnaðar- og sjávarútvegamálum á fundi Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra með Susilo Bambang Yudhoyono, forseta Indónesíu í morgun. Fundurinn stóð þremur klukkustundum lengur en til hafði staðið og segir Össur það sýna áhuga forsetans auk þess sem hann hafi boðað orkumálaráðherra, iðnaðarráðherra og ráðherra sjávarútvegsmála í landinu á fundinn.

„Það er ljóst að fundur okkar skilaði gríðarlegum árangri,” sagði Össur er blaðamaður mbl.is ræddi við hann eftir fundinn í dag. „Það er mikill áhugi og vilji meðal ráðamanna hér á samstarfi við Íslendinga í orkumálum, iðnaði og fiskveiðum og ljóst að tækifærin eru mikil. Hér á Indónesíu eru mestu jarðhitasvæði jarðar en einungis 5% þeirra eru nýtt til orkuframleiðslu. Með tækniþekkingu og fjármagni Íslendinga er því miklir möguleikar á nýtingu þessarar óbeisluðu orku."

Össur segir það bera vott um það hversu mikill áhugi Indónesa á samstarfi við Íslendinga sé að forsetinn hafi gefið fyrirmæli um það á fundinum að áhersla verði lögð á að hefja samstarf við Íslendinga um orkuframleiðslu sem allra fyrst. Þá lýsti hann yfir vilja til að hornesteinn verði lagður að sameiginlegri virkjun Íslendinga og Indónesa strax á næsta ári en þá verða 25 ár frá því stjórnmálasamband var tekið upp á milli ríkjanna.

Hann sagði ljóst að ráðamenn í Indónesíu viti af því hversu vel Íslendingum hafi gengið við uppbyggingu jarðhitavera og að þeir séu því reiðubúnir til að bjóða þeim góð jarðhitasvæði til nýtingar. Þess sé hins vegar gætt í Indónesíu að halda orkuauðlindum í eigu þjóðarinnar og því muni verða um leigusamninga til nokkurra áratuga að ræða sem tryggi rétt til orkuframleiðslu.

Þá sagði hann að Bandaríkjamenn sæki það fast að fá nýtingarrétt á jarðorkusvæðum Indónesa en að forsetinn hafi tekið af allan vafa um það að þeir vilji samstarf við Íslendinga.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra. Friðrik Tryggvason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert