Davíð Oddsson opnaði Hvalfjarðargöngin

Davíð Oddsson forsætisráðherra og frú ásamt Páli Sigurjónssyni, stjórnarformanni Fossvirkis, …
Davíð Oddsson forsætisráðherra og frú ásamt Páli Sigurjónssyni, stjórnarformanni Fossvirkis, og Gísla Gíslasyni bæjarstjóra á Akranesi við upphaf opnunarathafnar Hvalfjarðarganganna. Morgunblaðið/Golli

Hvalfjarðargöngin voru formlega opnuð við athöfn við suðurmunna gangnanna er hófst klukkan 14. Það var Davíð Oddsson forsætisráðherra sem lýsti göngin opnuð.

Hátíðarstemning var á Kjalarnesi við suðurmunna Hvalfjarðarganganna, eða eins og á 17. júní í höfuðborginni. Fjöldi fólks var þar samankominn og viðstödd voru helstu fyrirmenni þjóðarinnar og sveitarfélaga sem að göngunum liggja. Davíð Oddsson sagði a'ð opnun Hvalfjarðarganganna væri enn eitt skrefið í þróun samgöngumannvirkja á Íslandi frá því landið hlaut sjálfstæði. Fyrst hefði verið lögð áhersla á vegi, síðan brýr og svo flugvelli. Fæstir hefðu látið sig dreyma um að menn ættu eftir að grafa göng undir Hvalfjörð til að bæta samgöngur milli landshluta en nú væri sá draumur orðinn að veruleika. Við athöfnina við suðurmunnann fluttu Páll Sigurjónsson stjórnarformaður Fossvirkis, sem gróf göngin, og Gísli Gíslason bæjarstjóri á Akranesi ávörp áður en Davíð Oddsson opnaði göngin. Að því búnu óku langferðabílar með boðsgesti í gegnum göngin og önnur athöfn átti að hefjast við norðurmunnann klukkan 14:45.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert