"Við dugum í þetta" segir Viðeyjarsundkappi

Tveir sundkappar ætla að leggja frá Reykjavíkurhöfn um klukkan hálf fimm í dag og synda til Viðeyjar og aftur til baka. Þeir reikna með að hitastig sjávar sé um tíu gráður og að sundið taki þá um eina klukkustund. Annar kappanna var hinn hressasti þegar fréttavefur Morgunblaðsins náði tali af honum rétt í þessu og sagði að þeir félagar myndu alveg duga í afrekið.

Fylkir Þ. Sævarsson er að synda sitt fyrsta sjósund en Kristinn Magnússon er öllu vanari. Hann hefur synt hefðbundið Viðeyjarsund frá Viðey til Reykjavíkurhafnar, sem eru um 4,3 kílómetrar. Hann hefur einnig synt Drangeyjarsund. Þeir félagar ætla að synda ósmurðir og í sundskýlum. Að sögn Fylkis er vindáttin þannig að þeir munu synda þvert á öldurnar og því verður áreynslan álíka mikil báðar leiðir. Leiðin er tæpur kílómetri hvora leið. Fylkir sagði að veðrið væri ekki kaldara í dag en þeir hefðu reiknað með og bjóst við að hitastig sjávar væri um tíu gráður. Þeir félagar munu gera stuttan stans í Viðey þar sem mjög slæmt er að vera lengi ofansjávar. Fylkir sagði að ef þeir byrji að kólna kæmi skjálfti og þá væri mjög erfitt að hefja sundið að nýju. Því hyggjast þeir einungis hvíla sig í örfáar mínutur í Viðey. Fylkir og Kristinn njóta aðstoðar áhafna á tveimur gúmmíbátum. Bæði verða þrír menn frá björgunarsveitinni Ingólfi í Reykjavík sem alvanir eru sjóbjörgun og félagar þeirra sundkappa verða í öðrum gúmmíbát. Fylkir sagði að mikið öryggi væri að vita af bátunum tveimur. Undanfarið hafa þeir félagar æft sund í Nauthólsvíkinni. Þeir ætla beinustu leið í Árbæjarlaugina þegar þeir hafa lokið sundinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert