Átt þú skjöl eða gögn frá börnum og unglingum?

Borgarskjalasafn Reykjavíkur leitar nú að skjölum tengdum börnum og unglingum í tengslum við sýningu um börn og unglinga í Reykjavík á 20. öld, sem opnuð verður 4. mars. Safnið óskar eftir að fá til varðveislu eða að láni alls kyns skjöl og gögn frá börnum og unglingum eða tengd þeim, segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Skjölin sem óskað er eftir geta til dæmis verið: stílabækur, vinnubækur, persónuleg bréf, bréf frá pennavinum, bréf til pabba og mömmu, dagbækur, minningabækur, ástarbréf, póstkort, jólakort, tossamiðar, teikningar, fermingarkort, fermingarservíettur, gjafalistar frá fermingum, danskort, tónleikaplaköt, aðgangsmiðar, spilunarlistar frá bílskúrshljómsveitum og dægurlagatextahefti. Skjölin geta einnig verið ljósmyndir frá leikvöllum, skólastarfi, leikjum barna, afmælum, fermingarveislum; íþróttamannamyndir, biblíumyndir, Spice-girls-myndir, Batman-myndir og hasarblöð frá miðri öldinni. Borgarskjalasafn Reykjavíkur er til húsa í Tryggvagötu 15 og er opið mánudaga til föstudaga frá klukkan 9 til 16. Síminn er 563-1770.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert