Sundkappar í Fossvogi

Förum svo þangað!
Förum svo þangað! mbl.is/Jim Smart

Kristinn Magnússon og Fylkir Sævarsson syntu í tæpar tvær klukkustundir í Fossvoginum í Reykjavík í dag. Að sögn Kristins voru þeir félagar að æfa sig fyrir Viðeyjarsund sem þeir hyggjast synda um næstu helgi. Í dag syntu þeir frá Nauthólsvík, yfir voginn, og að siglingafélaginu Ými í Kópavogi. Þaðan héldu þeir inn í botn vogsins og syntu svo með ströndinni að Siglunesi, út í miðjan voginn og loks aftur í Nauthólsvík.

„Við vorum í einn tíma og fjörutíu mínútur í sjónum," sagði Kristinn. „Við gerum ráð fyrir að Viðeyjarsundið muni taka svipaðan tíma." Kristinn segist hafa stundað sjósund reglulega á sumrin í nokkur ár og þeir Fylkir hafa synt saman áður. „Í fyrra syntum við Fylkir út í Viðey úr Sundahöfn, skrifuðum í gestabókina þar og syntum svo í land aftur. Nú ætlum við að synda úr eyjunni og inn í gömlu höfn - það sem er kallað hið eina sanna Viðeyjarsund," sagði Kristinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert