Grófarhúsið opnað formlega á morgun

Á afmælisdegi Reykjavíkurborgar á morgun, 18. ágúst, verður formleg opnun Grófarhússins við Tryggvagötu, sem hýsa mun aðalsafn Borgarbókasafns Reykjavíkur, Borgarskjalasafn Reykjavíkur og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Við sama tækifæri fer fram afhending Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar, starfslauna listamanna Reykjavíkurborgar og styrkjar til tónlistarhóps Reykjavíkur árið 2000.

50 handrit bárust vegna Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar, en verðlaunin eru tvöföld í ár af tilefni menningarborgarársins og nema nú 600 þúsund krónum. Umsækjendur um starfslaun voru 96 og eru til úthlutunar 52 mánuðir. 11 umsóknir bárst um styrk til starfrækslu tónlistarhóps, sem nemur árslaunum tveggja listamanna sem þiggja starfslaun hjá Reykjavíkurborg. Athöfnin hefst kl.14 í Fjöllistasal Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu. Þar leikur Blásarakvintett Reykjavíkur og síðan verða flutt ávörp og afhent verðlaun, viðurkenningar, starfslaun og styrkir. Fram koma Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, Guðrún Jónsdóttir formaður menningarmálanefndar og byggingarnefndar Grófarhúss, Soffía Auður Birgisdóttir formaður dómnefndar um Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, Anna Geirsdóttir formaður dómnefndar um tónlistarhóp, Anna Torfadóttir borgarbókavörður, María Karen Sigurðardóttir, forstöðumaður Ljósmyndasafns Reykjavíkur, Svanhildur Bogadóttur, forstöðumaður Borgarskjalasafns Reykjavíkur og Signý Pálsdóttir menningarmálastjóri Reykjavíkur. Eftir athöfnina í Hafnarhúsi verður gestum boðið að ganga yfir í Grófarhús, njóta dagskrár og veitinga og skoða húsið. Þar afhjúpar borgarstjóri listaverkin Fagra veröld eftir Leif Breiðfjörð og Óður eftir Helga Gíslason. Frumflutt verður lag Ingva Þórs Kormákssonar við Fögru veröld eftir Tómas Guðmundsson, flutt ljóð eftir Snorra Hjartarson og Hljómsveit Ingva Þórs leikur áfram eftir að formlegri dagskrá lýkur. Á efstu hæðinni verður opnuð sýning á vegum Borgarskjalasafns og Ljósmyndasafns Reykjavíkur, Og höfnin tekur þeim opnum örmum, með panoramaljósmyndum af Reykjavíkurhöfn ásamt uppdráttum og skjölum tengdum hafnargerðinni í upphafi 20. aldar. Grófarhús verður opið almenningi á menningarnótt frá kl. 15-22, þar sem hægt verður að skoða húsið, njóta dagskráratriða og sýninga. Opnun Grófarhússins og sýninga tengda henni er á dagskrá menningarborgar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert