Synti þvert yfir Þingvallavatn

Fylkir á sundi í Þingvallavatni í kvöld. Hann synti skriðsund …
Fylkir á sundi í Þingvallavatni í kvöld. Hann synti skriðsund mestalla leiðina. mbl.is/Sigurður Jökull

Fylkir Sævarsson synti í kvöld þvert yfir Þingvallavatn, frá Mjóanestanga til Eldvíkur. Um er að ræða rúmlega 4,2 km leið og synti Fylkir hana á sléttum tveimur klukkutímum. Honum var vel fagnað þegar hann tók land um klukkan 22:30 en 30-40 manns biðu á bakkanum neðan við Nesjavallavirkjun. "Næst á dagskrá er að fara í heita pottinn," sagði Fylkir við mbl.is þegar hann hafði lokið sundinu en hann var aðeins í sundskýlu og með gleraugu og var ósmurður í ísköldu vatninu.

Fylkir, sem stundar verkfræðinám í Danmörku, er reyndur sundmaður sem hefur lagt stund á þolsund og m.a. synt Viðeyjarsund tvívegis. Hann sagði að mikill munur væri á að synda í sjó og vatni, bæði væri sjórinn hlýrri og eins væri auðveldara að synda í saltvatninu.Fylkir gerði aðeins örstutt hlé á sundinu til að drekka orkudrykki. Bátur frá Björgunarfélagi Árborgar fylgdi Fylki á sundinu og Kristinn Magnússon sundfélagi Fylkis var í bátnum og hvatti hann áfram. Þeir Kristinn og Fylkir kynntust við æfingar hjá Sundfélagi Hafnarfjarðar tólf ára gamlir og hafa báðir lagt fyrir sig þolsund. Kristinn hefur m.a. synt Drangeyjarsund auk Viðeyjarsunds.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert