Farsælast að stunda hefðbundna bankastarfsemi

Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP-fjárfestingarbanka, segir að það geti vissulega orkað nokkuð tvímælis þegar bankar fjárfesti í áhættusömum hlutabréfum á verðbréfamarkaði fyrir innlánspeninga. Telur hann að þetta sé verst fyrir þá sjálfa því þeir geti misst hlutleysið sem sé svo mikilvægt í viðskiptabankastarfseminni og að þeir muni sjá eftir nokkur ár að farsælast sé að halda sig við sína hefðbundnu starfsemi.

Þetta kom fram í ávarpi Margeirs þegar því var fagnað að MP-verðbréf hlaut leyfi sem fjárfestingarbanki og lánafyrirtæki. Gerði hann sameiningar á fjármálamarkaðnum að undanförnu að umtalsefni og þær miklu umræður sem skapast hefðu um ókosti þess að vera með viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi í sama fyrirtækinu.

„Það hefur m.a. verið rifjað upp að lagt var blátt bann við þessu árið 1933 í Bandaríkjunum. Hlutverk viðskiptabanka er að taka við innlánum frá viðskiptamönnum, ábyrgjast endurgreiðslu þeirra með vöxtum og ávaxta þau með útlánum. Fjárfestingarbankar eru hins vegar virkir á verðbréfamarkaði, bæði fyrir eigin reikning og hönd viðskiptavina og taka samkvæmt eðli sínu talsvert meiri áhættu en viðskiptabankar. Það getur vissulega orkað nokkuð tvímælis þegar bankar eru að fjárfesta í áhættusömum hlutabréfum á verðbréfamarkaði fyrir innlánspeninga. Held ég að þetta geti verið verst fyrir þá sjálfa, því þeir geta misst hlutleysið sem er svo mikilvægt í viðskiptabankastarfseminni. Eftir nokkur ár tel ég að bankarnir muni sjá að farsælast sé að stunda sín hefðbundnu bankaviðskipti og lifa á sínum hefðbundna vaxtamun í rólegheitum, en leita til sérhæfðra fjárfestingarbanka á borð við okkur um erfiðari málin,“ sagði Margeir meðal annars.

Þá kom það fram í máli Sigurðar Valtýssonar framkvæmdastjóra við þetta tækifæri að hagnaður MP-fjárfestingarbanka fyrstu níu mánuði ársins var 125 milljónir kr. og að eigið fé fjárfestingarbankans væri rúmlega 900 milljónir króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert