Mannabein frá miðöldum við Sigluvík

Sigurður Bergsteinsson, minjavörður Norðurlands eystra, við vinnu sína í gær.
Sigurður Bergsteinsson, minjavörður Norðurlands eystra, við vinnu sína í gær. mbl.is/Skapti

Mannabein, að öllum líkindum frá miðöldum, hafa fundist í jörðu við bæinn Sigluvík í Svalbarðsstrandarhreppi, skammt frá Akureyri. Vitað er að hálfkirkja, sem svo var kölluð, var á staðnum í kaþólskum sið og bænhús síðar, en engar heimildir hafa verið til fram að þessu um að fólk hafi verið grafið þarna. Nú er talið líklegt að forn kirkjugarður sé við bæinn.

Tvær beinagrindur fundust fyrst rétt við húsið í Sigluvík fyrir síðustu helgi þegar vélskófla var þar við jarðvegsvinnu. Framkvæmdir voru þegar í stað stöðvaðar en það var ekki fyrr en í fyrradag þegar Sigurður Bergsteinsson, minjavörður Norðurlands eystra, kom á staðinn við annan mann - Kristin Magnússon, starfsbróður sinn - að hægt var að skoða verksummerki.

"Við sáum engar grafir þar sem fyrstu beinin fundust; það var búið að raska þeim og beinin komin í hrúgu," sagði Sigurður.

Þeir Kristinn fundu svo í fyrradag óraskaða gröf, steinsnar frá hinum beinunum og alveg við innganginn í íbúðarhúsið, og telur Sigurður að þarna sé fundinn jaðar gamals kirkjugarðs, sem gæti reynst nokkrir tugir fermetra að stærð. Engar sagnir eru til um að bein hafi fundist þegar íbúðarhúsið á bænum var byggt, um 1940. Gamli bærinn var um 100 metrum norðar, og segir Sigurður það koma heima og saman við algengustu fjarlægðir milli bæjar og kirkju.

Í gröfinni, sem fannst óröskuð, telur Sigurður að kvenmaður hafi verið lagður verið til hinstu hvílu, um það bil 160 cm á hæð. "Og hún hefur verið bækluð á vinstri fæti, líklega eftir fótbrot, ef marka má hvernig vinstri sköflungurinn lítur út." Og fullorðin hefur hún verið, það merkir Sigurður á sliti tanna. Viðkomandi hefur ekki verið jarðaður í kistu, sem Sigurður segir benda til þess að um sé að ræða gamla gröf, en ekki hafi allir verið jarðaðir í kistu á miðöldum.

Sigurður segir að kirkja hafi verið byggð við bæinn Svalbarð, skammt frá Sigluvík, um 1150 og gætu vissulega hafa verið samtíða á bæjunum. "Það gæti líka hafa verið hætt að jarða hér þegar kirkjan var byggð á Svalbarði - en það eru einungis getgátur," sagði hann.

Hægt verður að aldursgreina beinagrindina, sem er mjög heilleg, með geislakolsmælingu. Þá kemur í ljós hvenær viðkomandi lést.

Birgir Hauksson, sem býr á Svalbarði ásamt eiginkonu sinni, Kristínu Sólveigu Bjarnadóttur, var viðstaddur þegar beinagrindurnar komu í ljós en segist ekkert hafa kippt sér upp við það. "Ég get þó ekki neitað því að mér finnst dálítið merkilegt að þetta skuli hafa fundist hérna," sagði hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert