Forsvarsmenn fegurðarsamkeppni og ríkið sýknuð af bótakröfu vegna slyss

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað forsvarsmenn fyrirtækis, sem sá um fegurðarsamkeppnir, og íslenska ríkið af skaðabótakröfu konu sem tók þátt í kynningu á torfærukeppni. Konan slasaðist þegar hún missti stjórn á torfærubíl og krafðist tæpra 2 milljóna króna í bætur.

Konan, sem höfðaði málið, tók þátt í fegurðarsamkeppni á vegum félagsins Ungfrú Ísland.is í mars 2001. Árið áður, eða vorið 2000, höfðu fyrirsvarsmenn félagsins Íslenskra akstursíþrótta ehf. samband við forsvarsmenn Ungfrú Ísland.is til að kanna hvort hægt væri að fá stúlkur til að taka þátt í kynningu fyrir aksturskeppni sem halda átti þá um sumarið. Var haft samband við umrædda konu sem féllst á að taka þátt í kynningunni.

Kynningin fór fram 22. júní 2000 í sandgryfjum í Sundahöfn. Fólst hún í því að konan keppti í akstri á torfæruökutæki með liði fegurðardrottninga á móti liði stúlkna sem unnu á skemmtistað í Reykjavík. Konan slasaðist í keppninni þegar hún missti stjórn á ökutækinu er hún ók yfir sandbing sem var ákveðinn hluti af keppninni. Ökutækið tókst á loft og skall harkalega niður en við það fékk konan hálshnykk.

Konan krafðist bóta og taldi að forsvarsmenn félagsins hefðu fengið hana til að taka þátt í aksturskeppninni, þrátt fyrir að þeir hafi gert sér grein fyrir hættunni sem keppninni fylgdi. Þá hafi lögreglan ekki gætt að því að að setja lögboðin skilyrði fyrir keppninni en stöðva hana ella. Bæði forsvarsmenn félagsins og ríkið mótmæltu því að slysið yrði rakið til bótaskylds atferlis eða athafnaleysis þeirra. Kom m.a. fram af hálfu þeirra að stefnandi bæri alla ábyrgð á tjóni sínu sjálf og slysið væri fyrst og fremst að rekja til of hraðs og glæfralegs aksturs hennar og gáleysis en hún hafi ekið mjög ógætilega þótt húnn hefði aldrei ekið slíkri bifreið áður.

Í niðurstöðum dómsins var ekki fallist á að forsvarsmenn Ungfrú Ísland.is bæru bótaábyrgð á tjóni stefnanda. Þá var heldur ekki fallist á að það mat lögreglunnar, að ekki þyrfti leyfi til að halda keppnina og að um sýningu hafi verið að ræða en ekki keppni, hafi verið rangt eða að lögreglu hafi borið að stöðva keppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert