Fornbýli í 500 metra hæð

Fundist hafa leifar af fornu bæjarstæði á Öxnadalsheiði skammt vestan Grjótár í Skagafirði. Rústirnar eru í 480 metra hæð yfir sjávarmáli og er það hæsta bæjarstæði sem fundist hefur í Skagafirði. Ekki eru til ritaðar heimildir um að búið hafi verið á Öxnadalsheiði.

Talið er að bærinn, sem að öllum líkindum er frá þjóðveldisöld (11. öld), hafi farið í eyði á 13. öld. Að sögn Hjalta Pálssonar frá Hofi og ritstjóra Byggðasögu Skagafjarðar mun bærinn að öllum líkindum hafa heitið Grund en þó er hvergi um hann getið í rituðum heimildum. Tóftir bæjarins og annars bæjar á Öxnadalsheiði hafa verið þekktar um nokkra hríð, að sögn Hjalta, en engar rannsóknir hafa verið gerðar á bæjarstæðunum eða um þau ritað. Að sögn Hjalta eru munnlegar heimildir fyrir þremur bæjarstæðum á Öxnadalsheiði en það þriðja hefur þó aldrei fundist. Bæirnir munu hafa heitið Grjótá, Blómsturvellir og Grund.

Hjalti fór ásamt fornleifafræðingi frá Byggðasafni Skagafjarðar og aðstoðarmönnum að bæjarstæði Grundar á föstudag í þeim tilgangi að aldursgreina tóftirnar. Þótt sú ferð hafi ekki skilað tilætluðum árangri telur Hjalti líklegt að bærinn sé frá þjóðveldisöld miðað við aðra bæi sem fundist hafa frá svipuðum tíma í Vesturdal og Austurdal og Hjalti hefur skráð.

Á Grund sést greinilegur hluti af vallargarði og tóftir, og þúfnalag sem ber með sér að tóftir séu í jörðu. Ekki er ljóst hversu stór bærinn Grund mun hafa verið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert