Ekkert lát á útlánaaukningu bankanna segir Seðlabankastjóri

Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri
Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri mbl.is/Eggert

Bankastjórn Seðlabankans hefur átt góða fundi með forráðamönnum bankakerfisins og m.a. rætt um útlánaaukningu þeirra. Á þessum fundum hafa verið gefnar yfirlýsingar um að aukin varfærni verði sýnd á komandi tíð, að því er fram kom í erindi Davíðs Oddssonar, Seðlabankastjóra á ársfundi bankans. Segir Davíð að bankastjórnin telji sig ekki hafa neinar ástæður til að efast um að full heilindi búi að baki þeim fyrirheitum. „Enn sem komið er heldur þó útlánaaukningin áfram á fyrstu mánuðum þessa árs og það á meiri hraða en árið 2004. Þær skýringar eru gefnar á þessu misræmi orða og athafna, að það taki tíma að tæma loforðin í útlánapípunum. Seðlabankinn treystir því enn að áform um breytingar til hins betra gangi eftir, enda er mikið í húfi," segir Davíð Oddsson.

„Það vakti athygli að hinn gætni fyrirrennari minn í starfi hér í bankanum sagði í síðustu ræðu sinni á þessum vettvangi að mikill vöxtur útlána bankanna sýndi að þeir hefðu farið offari. Það var orðið sem hann notaði. Í því sambandi var hann að ræða um áhrif á vöxt, hita og loks verðþenslu í efnahagslífinu. En orðrétt sagði hann einnig: “Útlánaþenslan undanfarin tvö ár er áhyggjuefni, bæði fyrir fjármálalegan stöðugleika og verðbólgumarkmið Seðlabankans. Útlán lánakerfisins í heild jukust um 16% að raungildi á síðasta ári.” Því miður virtust þessi varnaðarorð hafa minni en engin áhrif, því til viðbótar 16% raunútlánaaukningu hér innanlands á árinu 2004 bættist við 25% raunútlánaaukning á árinu 2005. Þessu verður að breyta," að sögn Davíðs Oddssonar.

Bæta þarf upplýsingagjöf

Davíð fjallaði í erindi sínu um skýrslur erlendra greiningarfyrirtækja um íslenskt efnahagslífs og viðbrögð við þeim. „Vissulega er margt af því sem fram hefur komið í margfrægum skýringum erlendra greiningardeilda missagt og annað byggt á misskilningi, röngum upplýsingum og í undantekningartilfellum á augljósri andúð á íslenskum bönkum og starfsemi þeirra.

Allt slíkt verður að harma og jafnvel fordæma þar sem tilefni eru til. En alvara málsins snýst ekki um þessi atriði. Hún snýr að því, að bankakerfið í heild eða einstakir bankar, hafi þá stöðu að umfjöllun af þessu tagi sé ekki hægt að kveða í kútinn í einu vetfangi. Alvaran snýr einnig að því, að þessar stofnanir séu á tilteknum tíma of veikar fyrir breytingum á framboði eða trausti á erlendum banka- og skuldabréfamarkaði.

Af hálfu Seðlabanka Íslands er ítrekað á þessum fundi að innri staða íslenska bankakerfisins er mjög traust og það uppfyllir ströngustu kröfur sem gerðar eru til þess, og hefur staðist með ágætum öll áhættupróf sem gerð hafa verið. Þetta skiptir auðvitað meginmáli.

Á hinn bóginn á að taka þá atburðarás sem við höfum upplifað síðan í nóvember mjög alvarlega. Sníða þarf af íslenska bankakerfinu þá annmarka sem erlendir álitsgjafar hnjóta aftur og aftur um, jafnvel þótt þeir annmarkar séu iðulega miklaðir og oftúlkaðir. Hægja þarf á vexti útlána eins og lofað hefur verið. Bæta þarf verulega upplýsingagjöf einstakra fjármálastofnana og til álita kemur sameiginlegt átak allra aðila í þeim efnum. Forðast þarf í því sambandi hvers konar skrum sem lítið skilur eftir.

Erlendar greiningardeildir hafa haldið því fram að markaðurinn hafi þegar lækkað mat á íslenskum bönkum töluvert niður fyrir það sem alþjóðlegu matsfyrirtækin hafa gefið út. Segja ýmsir greiningarmenn að óhjákvæmilegt sé að matsfyrirtækin muni fyrr eða síðar laga sig að þessum markaðsaðstæðum. Ég lét þess getið í nýlegu viðtali við Viðskiptablaðið að tækist vel til hjá öllum sem að fjármálastofnunum koma, gæti niðurstaðan orðið önnur og mun hagfelldari. Þegar útskýringum og umbótum væri lokið eða vel á veg komnar þá væri líklegra að markaðsaðilar myndu laga sig að áliti matsstofnananna en hið gagnstæða. Nú hefur matsfyrirtækið Standard & Poor’s gefið út gott mat á Glitni. Kjör íslenskra bréfa á eftirmarkaði breyttust til betri vegar í kjölfarið. Matsfyrirtækin hafa betri þekkingu á íslensku efnahagslífi og fjármálakerfi en flestar aðrar stofnanir sem um það fjalla.

Ég hef hér nefnt nokkur atriði sem óhjákvæmilegt er að íslensk fjármálafyrirtæki hugi að. En við megum ekki á þessum vettvangi láta við það sitja að predika bara yfir bankastofnunum. Við þurfum að horfa í eigin barm og þeirra stofnana sem eiga að setja ramma og skilyrði, fylgjast með að reglum sé sinnt og skapa trausta umgjörð um fjármálamyndina. Tryggja þarf að þær stofnanir, sem í hlut eiga, geti keppt um hæfan mannskap sem fengist getur fljótt við vandmeðfarin viðfangsefni og notið trausts og virðingar markaðarins. Ríkisvaldið, Seðlabanki og Fjármálaeftirlit hafa þegar gert með sér formlegt samkomulag um, hvernig eigi að fylgjast sameiginlega með vísbendingum um veikleika í fjármálastofnunum og hvernig við eigi að bregðast. Sá samstarfssamningur hefur verið lengi í burðarliðnum, er áþekkur því sem gerist með öðrum þróuðum þjóðum og hefur í sjálfu sér ekkert með núverandi óróa að gera."

Davíð segir að eftir að umbreytingarnar urðu á húsnæðismarkaði, hafi mál þróast svo að núverandi fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs fær ekki staðist. Mjög hefur dregist að úr þessu yrði bætt. Það hefur leitt til þess að vaxtamyndun á þessum markaði hefur verið óraunhæf, sem aftur hefur haft neikvæð áhrif á viðleitni Seðlabankans til að kæla efnahagskerfið. Nýleg yfirlýsing forsætisráðherra varðandi Íbúðalánasjóð er þýðingarmikil og hefur fengið jákvæð viðbrögð. En þessari yfirlýsingu þarf að fylgja eftir í verki, svo fljótt sem verða má, að sögn Davíðs.

Ákveðið að auka gjaldeyrisforðann

„Fyrir fáeinum árum var ákveðið að skilja að Seðlabanka og Fjármálaeftirlit og var þar horft til þróunar erlendis, ekki síst í Bretlandi, sem hafði mikil áhrif í öðrum löndum. Vel má vera að þetta hafi ekki alls staðar tekist eins vel og til stóð. Í Bretlandi eru flestir bankar gistibankar og hlutfall heimabanka lítið. Þessu er öfugt farið hér á landi. Þrátt fyrir mikla og vaxandi starfsemi utan landsteina teljast allar íslenskar fjármálastofnanir til íslenskra fyrirtækja. Umræður erlendis eru nú í gagnstæða átt við þá sem við tókum mið af þegar Fjármálaeftirlit var flutt frá Seðlabanka. Ísland er lítið land með hratt stækkandi fjármála- og bankaviðskipti. Áhyggjuefni er að eftirlits- og aðhaldsstofnanir hafa ekki styrkst að sama skapi þótt þær hafi sinnt hlutverki sínu vel. Íslensku bankarnir hafa góðan skilning á því, að það hefur grundvallarþýðingu fyrir álit matsfyrirtækja og erlendra greiningardeilda, að stofnanir á borð við Seðlabanka og Fjármálaeftirlit séu taldar öflugar og trúverðugar. Þetta er nefnt hér af hálfu bankastjórnar til umhugsunar um hugsanlegar endurbætur á umhverfi fjármálastofnana á Íslandi. En fleira þarf að koma til.

Eftir samráð ríkisstjórnar og Seðlabanka hefur verið ákveðið að auka gjaldeyrisforða bankans á næstu misserum og bæta enn eiginfjárstöðu hans, væntanlega með erlendu lánsfé en ekki með gjaldeyriskaupum á markaði. Þá er auðvitað verið að horfa til lengri framtíðar og þeirra breytinga sem eru að verða í alþjóðlegu efnahagslegu umhverfi frekar en til tímabundins óróa nú. Jafnframt hefur Seðlabankinn komið þeim tilmælum til fjármálaráðuneytis og ríkisstjórnar að gert verði átak til að efla grunn íslenska skuldabréfamarkaðarins. Ríkissjóður er óvenju vel aflögufær um þessar mundir og skuldir hans lækka ár frá ári. Þótt hann þurfi ekki að sækja fé á markað er vel þekkt annars staðar frá að það kemur ekki í veg fyrir að ríkisskuldabréf séu sé hryggstykkið í virkum markaði. Ráðuneytið og ríkisstjórnin hafa tekið umleitunum bankans vel og eru þær nú í athugun.

Staða ríkissjóðs Íslands er mjög sterk og sveigjanleiki og viðbragðskraftur íslensks efnahagslífs er mikill. Íslenskar fjármálastofnanir hafa aldrei haft betri grunn til að byggja á en nú. Það er fullvissa mín að þau aðvörunarmerki, sem hafa blikkað verði til góðs, þegar til lengri tíma er horft. Á tækni- og tölvuöld upplifum við stundum að það eru aðvörunarbjöllurnar sjálfar sem eru bilaðar og ekki þarf annað að gera en laga þær. Það má vera að það eigi við um einhverjar þeirra sem hringt hafa að undanförnu. En við skulum samt taka þær allar alvarlega og bæta úr hverju og einu því sem réttilega er fundið að, jafnvel því sem smávægilegast þykir. Þá stöndum við með tímanum ennþá sterkari eftir. Traust og öflugt banka- og fjármálakerfi er forsenda öflugs þjóðlífs. Í þessum sal eru nú staddir flestir þeir sem geta haft mest áhrif á góða stöðu þess. Á þá alla er heitið að bregðast hvergi. Það varðar miklu," sagði Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri á ársfundi Seðlabankans.

Ársskýrsla Seðlabankans

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert