Ólafur Ragnar flaug til Kína í boði Glitnis

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Hu Jintao, forseti Kína
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og Hu Jintao, forseti Kína

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, flaug til Kína í boði Glitnis þann 1. október sl. Þetta kemur fram í svari forsetaembættisins til Fréttavefjar Morgunblaðsins vegna fyrirspurnar þar að lútandi. Kemur fram í svarinu að það hafi verið forsetanum ánægjuefni að þiggja gott boð Glitnis um að vera meðal farþega í sérstakri vél sem fór beint frá Keflavík síðdegis þann 1. október.

„Forseti Kína, Hu Jintao, bauð forseta Íslands til fundar kl. 10:10 þriðjudaginn 2. október þar sem rætt skyldi um samvinnu landanna á sviði viðskipta, vísinda, tækni, mennta og menningar. Að fundinum loknum byði forseti Kína forseta Íslands til hádegisverðar og síðan að vera með sér á setningarhátíð Special Olympics, íþróttahátíðar þroskaheftra og seinfærra einstaklinga frá 165 löndum.

Ekkert af þessu hefði verið mögulegt ef forseti Íslands hefði farið með áætlunarflugi frá Íslandi eftir setningu Alþingis þann 1. október þar eð tímamunur milli Íslands og Kína er 8 klukkustundir og flugið með millilendingu langt. Með því móti hefði forseti ekki komið til Kína fyrr en að morgni 3. október að kínverskum tíma.

Það var forseta Íslands því ánægjuefni að þiggja gott boð Glitnis um að vera meðal farþega í sérstakri vél sem fór beint frá Keflavík síðdegis þann 1. október. Glitnir er einn helsti styrktaraðili að þátttöku Íslendinga í Special Olympics. Með því tókst forseta að ná fundi með forseta Kína og reyndist sá fundur afar árangursríkur og lagði grundvöll að enn öflugri samvinnu landanna á fjölmörgum sviðum og einnig að sitja hádegisverðarboð forseta Kína og vera við hlið hans á hinni glæsilegu setningarhátíð Special Olympics, mestu íþróttahátíð þroskaheftra og seinfærra einstaklinga sem haldin hefur verið og stærsta íþróttaviðburði ársins í veröldinni. Flugvélin lenti í Shanghai tæpum hálftíma áður en fundur forsetanna átti að hefjast," samkvæmt svari frá forsetaembættinu til Fréttavefjar Morgunblaðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert