Álit mannréttindanefndar ekki þjóðréttarlega bindandi

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, segir að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um íslenska kvótakerfið sé ekki þjóðréttarlega bindandi eins og um dóm sé að ræða. Það hafi hins vegar mikið vægi því mannréttindanefndin sé mikilvæg stofnun innan SÞ og Ísland hafi samþykkt þessa kæruleið um að nefndin fjalli um kærur á hendur ríkinu.

„Íslendingar eru aðilar að samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hafa skuldbundið sig til að virða ákvæði hans. Sá samningur hefur haft umtalsverð áhrif á Íslandi. Hann hefur verið notaður í dómsmálum og til hans verið vísað, til að mynda þegar íslenskir dómstólar túlka ákvæði stjórnarskrárinnar, enda tekur 65. grein stjórnarskrárinnar mið af 26. grein samningsins sem var til skoðunar í þessu máli, en hún kveður á um svo nefnda almenna jafnræðisreglu," segir Björg.

Spurð hvaða áhrif það geti haft ef Ísland virðir álit nefndarinnar að vettugi segir Björg: ,,Það hefur engar lagalegar afleiðingar í för með sér. Það eru engin úrræði hjá Sameinuðu þjóðunum til þess að fylgja niður stöðum Mannréttindanefndarinnar eftir eins og um dóm frá t.d. Alþjóðadómstólnum væri að ræða. Hins vegar er fullkomlega eðlilegt að líta svo á að það þurfi að skoða þessa niðurstöðu mjög alvarlega og reyna eins og unnt er að fylgja henni. Vandinn við niðurstöðuna er hins vegar sá að hún er afskaplega óskýr og rökstuðningurinn er mjög knappur," segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert