Hvergerðingar óttast mengun frá virkjunum

Hluti fundargesta í Hveragerði í gærkvöldi.
Hluti fundargesta í Hveragerði í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Margar spurningar brunnu á Hvergerðingum á fundi sem haldinn var í Grunnskóla Hveragerðis í gær. Þar lýsti fulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur framkvæmdunum sem fyrirhugaðar eru bæði á Hellisheiði, í Hverahlíð og Bitru, og gerði grein fyrir þeim lausnum sem OR hyggst nota til að lágmarka umhverfisáhrif af virkjunarframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í nágrenni bæjarins.

Meðal annars á að beita nýjum aðferðum til að lágmarka losun brennisteinsvetnis út í umhverfið og láta mannvirki falla að landslaginu.

Margir fundargestir voru efins um gagnsemi hugmynda Orkuveitunnar og hafa áhyggjur af hljóð-, lykt-, og sjónmengun af virkjununum, auk þess sem vinsælt útivistarsvæði spillist.

Formaður skipulags- og byggingarnefndar lýsti m.a. áhyggjum sínum af því að virkjanirnar gætu skert verulega möguleika svæðisins sem íbúða- og ferðamannasvæðis.

Fulltrúi Landverndar gagnrýndi Orkuveituna fyrir virkjunarstefnu sem hann kallaði ágenga, og ekki taka mið af sjálfbærri nýtingu jarðhita.

Fundargestir settu fram ýmsar athugasemdir við fyrirhugaðar jarðhitavirkjanir Orkuveitu Reykjavíkur. Einum fundargesta leist ekki á örnefnanotkun í gögnum og skýringarmyndum OR og uppskar mikinn hlátur viðstaddra þegar hann hélt því fram að þeir sem hefðu tekið saman gögn Orkuveitunnar þættu ekki tækir til smölunar.

Nánar er fjallað um fundinn í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert