Lést af völdum brunasára

Frá Dalbraut í gær.
Frá Dalbraut í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Kona á níræðisaldri sem var í íbúð hússins að Dalbraut 27 í Reykjavík þar sem eldur kom upp síðdegis í gær, lést af völdum brunasára í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá Sigurbirni Víði Eggertssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Reykjavík, liggja eldsupptök ekki fyrir.

Tilkynnt var um eldinn, en þjónustuíbúðir aldraðra eru í húsinu, til lögreglu klukkan 17:15 og fór allt tiltækt slökkvilið og lögregla á staðinn. Mikill reykur var í húsinu og fóru tveir reykkafarar inn í herbergið þar sem eldur var laus og náðu konunni út.

Húsið er á tveimur hæðum og var eldurinn í íbúð á neðri hæð en allar 23 íbúðirnar í álmunni voru rýmdar. Samtals eru 46 íbúðir í tveimur álmum og þurftu um 50 manns aðstoð við að komast út.

Auk konunnar voru sjö til viðbótar fluttir á slysadeild til aðhlynningar. Á annan tug íbúa hússins fengu ekki að gista í íbúðum sínum í nótt og liggur ekki fyrir hvort þeir geti snúið aftur til síns heima síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert