Skjölin nýtast við ritun Íslandssögunnar

Skjöl Bjarna Benediktssonar afhent Borgarskjalasafninu í gær.
Skjöl Bjarna Benediktssonar afhent Borgarskjalasafninu í gær. mbl.is/Kristinn

Viðamikið einkaskjalasafn Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi borgarstjóra og forsætisráðherra, var afhent Borgarskjalasafni Reykjavíkur til varðveislu og eignar í gær. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og sonur Bjarna Benediktssonar afhenti safnið fyrir hönd erfingja Bjarna en í gær voru liðin 100 ár frá fæðingu hans.

Við þetta tilefni sagði Björn að um afar merkilegt safn væri að ræða sem væri mikið að vöxtum og í því væri margan fróðleikinn að finna. „Ég tel að með þessu safni fái Borgarskjalasafn ákaflega mikilvægar heimildir sem munu nýtast fyrir Reykvíkinga og þjóðina alla við ritun Íslandssögunnar á fyrri hluta 20. aldarinnar,“ sagði hann.

Fréttabréf frá æskuárunum

Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður sagði safnið sérstaklega heildstætt. „Safnið nær alveg frá æskuárum Bjarna. Til dæmis eru þarna lítil fréttabréf sem hann hefur útbúið þegar hann var 8 til 12 ára. Síðan byrjaði hann í MR þegar hann var 12 ára og þarna eru glósur frá menntaskólaárunum, ritgerðir og slíkt og ítarlegar dagbækur frá háskólaárunum og allar glósur úr Háskólanum þegar hann var í lögfræðinámi. Þegar hann er 24 ára verður hann prófessor í lögfræði þannig að þarna eru kennslugögnin hans úr Háskólanum. Síðan eru skjöl frá öllum hans pólitíska ferli,“ sagði hún.

Að sögn Svanhildar vinna starfsmenn Borgarskjalasafnsins nú hörðum höndum við að skrá skjölin. Búið er að grófskrá þau en stefnt er að því að safnið verði fullskráð og aðgengilegt fræðimönnum 1. febrúar 2009.

Mikilvæg heimild

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri tók til máls að afhendingu lokinni og fjallaði m.a. um það hve mörg skjöl söfnuðust oft saman hjá stjórnmálamönnum gegnum feril þeirra, bæði stjórnmálalegs eðlis og einnig af persónulegu tagi. Stjórnmálamennirnir og afkomendur þeirra lentu oft í vandræðum með það hvað gera skyldi við skjölin og oft lentu þau í glatkistunni. Skjölin þættu oft lítils virði á sínum tíma en þegar þau eltust og fjarlægð kæmist á atburðina, yrðu þau meiri.

„Einkaskjöl stjórnmálamanna eru mikilvægar heimildir um líf okkar og sögu. Þau gefa aðra mynd en opinber skjöl og auka oft og dýpka skilning okkar á einstökum atburðum og atburðarás. Jafnframt sýna þau oft betur en opinberu skjölin hvaða rök lágu að baki ákvörðunum og atburðum í sögunni.“ Ólafur notaði tilefnið og vakti athygli á þeim möguleika að koma skjölum stjórnmálamanna til varðveislu á opinberum skjalasöfnum eins og Borgarskjalasafni, Þjóðskjalasafni og handritadeild Landsbókasafns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert