Friðrik og Mary á Bessastöðum

Friðrik og Mary ásamt íslensku forsetahjónunum á Bessastöðum í dag.
Friðrik og Mary ásamt íslensku forsetahjónunum á Bessastöðum í dag. mbl.is/Kristinn

Friðrik krónprins Danmerkur og eiginkona hans Mary krónprinsessa komu á Bessastaði í morgun en þau eru í heimsókn á Íslandi dagana 5.-8. maí  í boði forseta Íslands Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorrit Moussaieff forsetafrúar.

Eftir hádegisverð í boði forsetahjóna heimsækja krónprinshjónin Áslandsskóla í Hafnarfirði þar sem Leifur S. Garðarsson skólastjóri, kennarar og nemendur taka á móti gestum og kynna dönskukennslu og annað starf í skólanum.

Þaðan liggur leiðin í Þjóðmenningarhúsið þar sem Vésteinn Ólason forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar fylgir gestum um handritasýninguna.
 
Síðdegis taka Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Stefán Arnórsson stjórnarformaður Jarðvísindastofnunar HÍ á móti Friðriki krónprins og forseta Íslands í Öskju, húsi náttúruvísinda HÍ. Þar verður stutt ráðstefna um jarðvísindi, jöklafræði og loftslagsbreytingar. Á sama tíma munu Mary krónprinsessa og forsetafrúin kynna sér íslenska hönnun og heimsækja Eggert Pétursson listmálara.
 
Í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar tekur Birgitta Spur á móti krónprinshjónunum og forsetahjónunum. Þar mun Charlotte Bøving leikkona lesa ljóð sem íslensk skáld hafa samið á dönsku og Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer fiðluleikarar flytja hluta úr verki eftir Hildigunni Rúnarsdóttur tónskáld.
 
Í kvöld er kvöldverður forsetahjóna á Bessastöðum til heiðurs Friðriki krónprins og Mary krónprinsessu.

Friðrik og Mary ásamt íslensku forsetahjónunum á Bessastöðum í dag.
Friðrik og Mary ásamt íslensku forsetahjónunum á Bessastöðum í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert