Fagráð ræddi ekki við meintan þolanda

mbl.is/Sig. Jóns.

Fagráð um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að fulltrúi þess hafi ekki rætt við meinta þolendur  þeirra mála sem lögreglan á Selfossi hefur nú með höndum. Þá eru gerðar athugasemdir við vinnslu umfjöllunar um málið sem birtist í  seinni fréttum Sjónvarpsins þann 8. maí. 

Yfirlýsingin  fer í heild sinni hér á eftir.  

„Í seinni fréttum sjónvarps þann 8. maí var  viðtal við fyrrum forstöðumann barnahúss, þar sem velt var vöngum yfir aðkomu fagráðs um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar að máli sem lögreglan á Selfossi hefur nú með höndum og varðar meint kynferðisbrot sóknarprestsins þar.  Viðtalið var kynnt sem harðorð gagnrýni og tekið fram að aðkoma fagráðs hafi skaðað málið. Það er að heyra að viðmælandi gangi út frá því að fagráð hafi rætt við meintan þolanda, sem ekki var gert. 

Í viðtalinu sagði orðrétt: "aðkoma fulltrúa fagráðs að þessu máli  er til þess fallin að gera framburð vitnis fyrir dómi hugsanlega rýrari vegna þess að menn geta bent á að það hafi verið haft áhrif á það hvað barnið segir með endurteknum viðtölum - þess háttar viðtöl eru einnig íþyngjandi".  Það skal tekið fram að fagráð hefur í einu og öllu starfað eftir gildandi lögum.  Nú verandi fagráð er skipað  presti, lögfræðingi og uppeldis- og afbrotafræðingi og hafi hinir tveir síðast nefndu enga aðkomu að kirkjunni að öðru leyti. Fagráð gætir þess sömuleiðis að talsmenn þess séu ekki í störfum á vegum kirkjunnar. 

Í því máli sem nú er til umfjöllunar hefur fagráð gætt þess að ekki sé rætt við meintan þolanda og þannig ekki raskað rannsóknarhagsmunum málsins.  Fulltrúi fagráðs hefur því ekki valdið því að meintur þolandi þurfi að þola endurtekin og íþyngjandi viðtöl eins og sagt er í fréttaviðtalinu.  

Fagráð gerir athugasemd við að ekki var við undirbúning fréttarinnar sannreynt hvort það væri rétt sem viðmælandi virtist gefa sér, að fulltrúi fagráðs hafi rætt við meintan þolanda, en á þeirri rangfærslu hvílir sú staðhæfing að aðkoma fagráðs hafi skaðað málið.  Við gerð fréttarinnar var ekki leitað upplýsinga frá fagráðinu eða sjónarmiða þess.  Fréttin kastar því rýrð á fagráð, ef ekki kirkjuna alla sem hefur, með starfsreglum þeim sem kirkjuþing hefur sett nr. 739/1998, tekið einarða afstöðu til líða ekki kynferðisbrot innan sinna veggja.  Þær starfsreglur eru ekki til aðfinnslu heldur miklu heldur til eftirbreytni öðrum sem vilja taka af festu á kynferðisbrotum.    

Fagráði er falið að fylgja eftir málum svo að þau fari í viðhlítandi farveg en hefur sjálft ekki rannsóknarhlutverk.  Í tilvikum fullorðinna er fagráði ætlað að styðja meinta þolendur.  Það styður þá til að koma umkvörtunum sínum á framfæri og fá viðhlítandi umfjöllun í réttarkerfinu eða, ef viðkomandi vill eða treystist ekki til að leggja fram kæru, þá beina málinu til úrskurðarnefndar kirkjunnar.  Í tilvikum þar sem börn eiga hlut að máli er þeim sem málið ber fram, gerð grein fyrir að málinu skuli vísað til barnaverndarnefndar.  Því er síðan vísað til barnaverndarnefndar sem hefur allt forræði málsins á sínum höndum.

Frekari upplýsingar má finna á heimasvæði fagráðs á vef kirkjunnar www.kirkjan.is/kynferdisbrot og þar má einnig finna bækling fagráðs "kynferðisbrot í kirkju - hvað ber að gera? og vísan í starfsreglur 739/1998.

Með vinsemd og virðingu

sr. Gunnar Rúnar Matthíasson

formaður fagráðs um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar"   
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert