Allur lager verka Halldórs Laxness til sölu

Halldór Laxness.
Halldór Laxness. mynd/Ólafur K. Magnússon

Allur lager verka Halldórs Laxness og lager og útgáfuréttur Íslenskrar orðabókar og Íslendingasagna var auglýstur til sölu í laugardagsútgáfu Morgunblaðsins. Salan er til komin vegna sáttar sem útgáfufélagið gerði við Samkeppniseftirlitið, og kom til vegna samruna JPV útgáfu, Máls og menningar-Heimskringlu og Vegamóta.

Forstjóri Forlagsins vildi ekki nefna neinar tölur í samtali við blaðamann, en ljóst er að verðmæti allra þeirra stórvirkja, sem til sölu eru, hleypur á mörg hundruð milljónum króna.

Athygli vekur að útgáfuréttur að verkum Halldórs Laxness er ekki falboðinn og segir Jóhann Páll Valdimarsson, forstjóri Forlagsins, ástæðu þess, að höfundarréttur verkanna liggi hjá ættingjum Halldórs Laxness. „Það er þessi lager og annað sem tilheyrir því sem okkur er skylt að selja. En ætli einhver að kaupa þetta af okkur verður viðkomandi fyrst að ná samningum við erfingja Laxness,“ segir Jóhann sem tjáir sig fyrst núna efnislega um sáttina við Samkeppniseftirlitið.

„Það fór nú fljótlega á flot að þarna væri um að ræða íslensku orðabókina og Laxness, og við neituðum því svo sem ekki. En þarna kemur listinn fram, enda verðum við með einhverjum hætti að vekja athygli á því hvaða verk eru til sölu, til að uppfylla skyldur okkar gagnvart Samkeppniseftirlitinu.“

Nánar er fjallað um þetta í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert