Menntamálaráðherra friðar 7 hús

Menntaskólinn við Hamrahlíð, skömmu eftir að hann var byggður.
Menntaskólinn við Hamrahlíð, skömmu eftir að hann var byggður.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur ákveðið að fenginni tillögu húsafriðunarnefndar að friða sjö hús, sem öll eru reist á 20. öld. Friðunin nær til ytra borðs húsanna. Yngsta húsið er Menntaskólinn í Hamrahlíð, sem var byggður árið 1966 og teiknaður af Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt.

Hin húsin sem um ræðir eru:

Lindargata 51, Franski spítalinn, var reistur árið 1902 og var eitt þriggja sjúkrahúsa franska spítalafélagsins á Íslandi.

Dyngjuvegur 8, Gunnarshús, heimili Gunnars Gunnarssonar rithöfundar og fjölskyldu hans, reist árið 1950. Húsið var teiknað af var Hannesi Kr. Davíðssyni.

Sjómannaskólinn v/Háteigsveg (nú Fjöltækniskólinn), var byggður á árunum 1942-45 og teiknaður af arkitektunum Sigurði Guðmundssyni og Eiríki Einarssyni. Það sem m.a. gerir bygginguna óvenjulega er að innsiglingarsviti Reykjavíkurhafnar er felldur inn í form hússins sem turn.

Sólheimar 5, sem reist var 1957-59 af Gunnari Hanssyni húsateiknara. Hann bjó sjálfur í húsinu með fjölskyldu sinni og er það gott dæmi um byggingarlist hans. Upphafleg hönnun hússins hefur varðveist að utan sem innan án breytinga.

Tómasarhagi 31, reist var á árunum 1953-54 og teiknað af Gísla Halldórssyni arkitekt. Þetta er talið eitt merkasta verk Gísla í listrænu tilliti.

Skriðuklaustur í Fljótsdal sem Gunnar Gunnarsson skáld lét reisa árið 1939 og teiknað var af þýska arkitektinum Fritz Höger. Íbúðarhúsið að Skriðuklaustri er sérstæð með mikið listrænt og menningarsögulegt gildi og var heimili Gunnars Gunnarssonar skálds á árunum 1939-48.

Skriðuklaustur.
Skriðuklaustur. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert