Dómur sögunnar á einn veg

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra telur að skoða eigi símahleranir á árabilinu 1949 – 1968 í sögulegu samhengi. Hann kveður þær einn þátt úr sögu kalda stríðsins, sem nauðsynlegt sé að skoða. Hann segir að umfjöllun Kjartans Ólafssonar, fyrrverandi ritstjóra og alþingismanns sem birtist í miðopnu í Morgunblaðinu í dag, staðfesti enn að farið hafi verið að lögum við alla meðferð þessara mála.

Kjartan er harðorður í greininni og fer þess meðal annars á leit að núverandi dómsmálaráðherra biðji alla þá sem brotið var á með þessum hætti afsökunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, enda sé símahlerunin á umræddu tímabili svartur blettur á sögu íslenska lýðveldisins og víti til varnaðar.

Í skriflegu svari til Sjónvarps mbl segir Björn að hann hafi ávallt verið eindreginn talsmaður þess að allar upplýsingar í tengslum við málið komi fram í dagsljósið og fagnar hann grein Kjartans. Björn telur hins vegar ekki þörf á afsökunarbeiðni. Orðrétt segir hann:

,,…Sögunni verður ekki breytt, hvorki þætti þeirra, sem stóðu með málstað Kjartans né hinna, sem voru honum ósammála. Dómur sögunnar er á einn veg. Íslenska ríkið þarf ekki að biðja neinn afsökunar vegna þess dóms, en telji einstaklingar, að ríkið hafi á sér brotið, er eðlilegt, að um það sé fjallað á grundvelli laga og réttar."

Páll Bergþórsson veðurfræðingur er á lista sem Kjartan birtir yfir þá sem hlerað var hjá. Páll tekur undir með Kjartani og segir algert lágmark að ráðherra biðjist afsökunar.



Tölvupóstur var sendur Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra í morgun, en hann svarði um hæl. Samskiptin voru svohljóðandi:

Sjónvarp mbl óskar með þessu bréfi eftir viðbrögðum frá dómsmálaráðherra við grein Kjartans Ólafssonar, fyrrverandi ritstjóra og alþingismanns, í miðopnu Morgunblaðsins, þriðjudaginn 27. maí 2008, þar sem fjallað er um símahleranir stjórnvalda á árunum 1949 - 1968.

Spurningarnar eru í þremur liðum:

  1. Almenn spurning til dómsmálaráðherra: Hvað finnst þér um grein Kjartans, þ.e. að þessar upplýsingar komi fram nú og með þessu hætti.
  2. Svar: Ég hef verið eindreginn talsmaður þess, að allar upplýsingar af þessu tagi lægju fyrir til rannsókna og fagna því, að Kjartan hefur lagt á sig að draga þær saman á þennan hátt.

  3. Kjartan ritar: ,,Með hinum víðtæku pólitísku símahlerunum var ráðist að heiðvirðu og vammlausu fólki með aðferðum sem almennt þykir aðeins við hæfi að beita gegn stórhættulegum glæpamönnum… Þessar pólitísku símahleranir á árunum 1949-1968 eru svartur blettur í sögu íslenska lýðveldisins. Þær eru víti til varnaðar fyrir alla þá sem fara með æðstu völd, nú og á komandi árum."
  4. Spurning til dómsmálaráðherra: Getur þú tekið undir þessa skoðun Kjartans.

    Svar: Þetta er einn þáttur úr sögu kalda stríðsins, sem nauðsynlegt er að skoða, til að unnt sé að skrá hana og sjá í heild. Hér er enn staðfest að farið var að lögum við alla meðferð þessara mála. Á hinn bóginn liggur ekki fyrir, hvort lögregla nýtti sér þær heimildir, sem dómarar veittu, en þær tengdust allar ákveðnum tilvikum, eins og áður hefur verið nákvæmlega rakið.

    Ég veit ekki annað en sagan sýni, að allir þeir stjórnmálmenn, sem Kjartan nefnir til sögunnar hafi átt samstarf, og sumir náið um lausn mikilvægra mála, eftir að þau atvik gerðust, sem kölluðu á heimildir fyrir lögregluna. Þessi atvik leiddu ekki til neinna eftirmála á þeim tíma og eiga ekki að gera nú mörgum áratugum síðar, heldur ber að skoða þau í ljósi sögunnar í heild.

  5. Kjartan skorar á dómsmálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, að biðjast afsökunar á athæfinu.

    Spurning til dómsmálaráðherra: Hyggst hann verða við þeirri áskorun?

    Svar: Hér bregður Kjartan Ólafsson sér úr hlutverki fræðimannsins í stjórnmálahaminn. Hann var sem kommúnisti og sósíalisti virkur þátttakandi í átökum kalda stríðsins og hélt fram málstað sínum af þunga. Sögunni verður ekki breytt, hvorki þætti þeirra, sem stóðu með málstað Kjartans né hinna, sem voru honum ósammála. Dómur sögunnar er á einn veg. Íslenska ríkið þarf ekki að biðja neinn afsökunar vegna þess dóms, en telji einstaklingar, að ríkið hafi á sér brotið, er eðlilegt, að um það sé fjallað á grundvelli laga og réttar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert