Ísbjörninn enn í æðarvarpinu

Ísbjörninn að Hrauni í gær
Ísbjörninn að Hrauni í gær mbl.is/Rax

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki sem er að Hrauni á Skaga, segir að ísbjörninn sé rólegur og hafi verið það í nótt. Upp úr klukkan sex í morgun fór hann að hreyfa sig en er enn í æðarvarpinu, sem er í um 300 metra fjarlægð frá íbúðarhúsinu að Hrauni.

Að sögn Stefáns hefur ísbjörninn fært sig um nokkur hundruð metra innan æðarvarpsins og allt í nokkuð góðum málum eins og er. „En það getur breyst á einu andartaki," segir Stefán.

Vindátt er af hafi sem er hagstætt því þá finnur ísbjörninn ekki lykt af fólki en talsverður mannskapur er á staðnum, lögregla, björgunarsveitir og starfsfólk frá Náttúrustofu norðvesturlands. Eins er sjúkrabíll á staðnum og skyttur. Þyrla Landhelgisgæslunnar er í viðbragðsstöðu á Sauðárkróki.

Stefán segist ekki vita hvenær nákvæmlega er von á starfsmanni frá dýragarðinum í Kaupmannahöfn með búr og tæki til þess að fanga björninn en það verður einhvern tíma síðar í dag.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert