Hlupu út á flugbrautina á Keflavíkurflugvelli

Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar mbl.is/Helgi Bjarnason

Tveir karlmenn hlupu út á flugbrautina við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í morgun.  Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum óskuðu öryggisverðir eftir aðstoð lögreglu við að fjarlægja mennina.  Atvikið átti sér stað á áttunda tímanum í morgun.

Að sögn Eyjólfs Ágústs Kristjánssonar, fulltrúa lögreglu- og tollstjóra á Suðurnesjum voru mennirnir handteknir og verða þeir yfirheyrðir í dag.   „Við lítum á svona hegðun mjög alvarlegum augum, og kann refsing að varða allt að sex ára fangelsi," segir Eyjólfur.

Eyjólfur vill ekki fullyrða neitt um í hvaða tilgangi mennirnir voru þarna en segir að það muni skýrast við skýrslutökur síðar í dag. 

Staðhæft er á ýmsum bloggsíðum að mennirnir hafi verið að mótmæla brottför Keníamannsins Paul Ramses, sem fluttur var nauðugur frá landinu í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert