Starfsmenn ráðuneytis dæmdir vanhæfir

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í dag að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu og undirmenn hans hafi verið vanhæfir til að staðfesta breytingu á samþykktum lífeyrissjóðsins Gildi. Var Gildi því óheimilt að draga frá örorkulífeyri konu sem höfðaði mál gegn Gildi þann örorkulífeyri og tekjutryggingu er hún fær frá Tryggingastofnun ríkisins. Var lífeyrissjóðnum gert að greiða konunni  700.000 krónur í málskostnað. 

Konan krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að við útreikning Gildis á örorkulífeyrisgreiðslum til hennar skuli ekki tekið tillit til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum.  

Konan var fyrst sjóðfélagi í Lífeyrissjóõi ASB.  Eftir nokkrar sameiningar lífeyrissjóða var lífeyrissjóðurinn Gildi stofnaður og er hún því félagi í honum og fær greiddan örorkulífeyri.  Konan fór að vinna fyrir launum á árinu 1962.  Hún var á vinnumarkaði þar til hún gekkst undir brjósklosaðgerð á Landspítalanum í nóvember 1981.  Sú aðgerð tókst illa og var örorka hennar  metin 75% á árinu 1982 og hefur henni verið greiddur örorkulífeyrir síðan.  Hún var metin til örorku og hóf töku lífeyris er í gildi var reglugerð fyrir Lífeyrissjóð Verkamannafélagsins Dagsbrúnar og Verkakvennafélagsins Framsóknar er tekið hafði gildi 1. janúar 1981. 

            Samkvæmt 11.-14. gr., sbr. og 2. gr. reglugerðarinnar skyldi sjóðurinn tryggja sjóðfélögum ellilífeyri, örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri.  Í 12. gr. er fjallað um örorkulífeyri.  Þar segir:  ... Þrátt fyrir örorku á enginn rétt á örorkulífeyri, meðan hann heldur fullum launum fyrir starf, það er hann gegndi, eða fær jafnhá laun fyrir annað starf, sem veitir lífeyrissjóðsréttindi, og aldrei skal lífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. 

            Þrátt fyrir þetta ákvæði var örorkulífeyrir stefnanda frá lífeyrissjóði hennar ekki lækkaður vegna greiðslna er hún fékk frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt lögum um almannatryggingar.  Stefnandi hefur ekki haft launatekjur frá því að örorka hennar var metin. 

            Á árinu 2005 var Lífeyrissjóðurinn Gildi, stefndi í máli þessu, stofnaður.  Voru þá sameinaðir Lífeyrissjóðurinn Framsýn og Lífeyrissjóður sjómanna.  Voru sjóðnum settar samþykktir og hljóðaði grein 12.3 svo: 

            Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.  Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. gr. 14.4. vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Við mat á því hvort tekjuskerðing hafi orðið skal leggja til grundvallar meðaltal tekna sjóðfélaga síðustu fjögur almanaksár fyrir orkutapið...  Í úrskurði um lífeyri skal jafnframt greina hvaða launatekjur eru lagðar til grundvallar útreikningi, svo sjóðfélaga megi vera ljóst við hvaða mörk lækkun örorkulífeyris vegna tekna er miðað. Örorkulífeyrisþega er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar samkvæmt launaframtali, sé þess óskað...  

            Á ársfundi stefnda 26. apríl 2006 var að tillögu stjórnar gerð breyting á samþykktunum.  Breytingin fólst í því að bætt var í grein 12.3 þessu ákvæði: 

            Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar.  

            Þessum texta er bætt við ákvæðið framan við orðin Í úrskurði um lífeyri skal jafnframt greina hvaða launatekjur...

            Með bréfi dagsettu 30. maí 2006 leitaði stefndi eftir staðfestingu fjármála­ráðuneytisins á breytingunum.  Í bréfinu er vísað til bréfs tryggingastærðfræðings sjóðsins, þar sem segir m.a. að breytingarnar beinist að orðalagi, stjórn og rekstri sjóðsins og hafi óveruleg eða engin áhrif á réttindi sjóðfélaga.

Segir í niðurstöðu dómsins að vegna stöðu sinnar sem formaður stjórnar Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda var ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, vanhæfur til að fjalla um efnislega sambærilegar breytingar og gerðar voru á samþykktum Söfnunarsjóðsins hjá öðrum lífeyrissjóðum.  Á sama hátt voru allir undirmenn hans í ráðuneytinu vanhæfir til meðferðar málsins.  Jafnframt var ekki fallist á að á að verkefni þetta hafi varðað smávægilega hagsmuni eða að þáttur ráðuneytisstjórans í því hafi verið lítilfjörlegur.  Þá skipti ekki máli  þó staðfestingin hafi verið gerð fyrir hönd ráðherra.  Staðfesting ráðuneytisins á umræddum breytingum á samþykktum stefnda var því ógild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert