Einn handtekinn í Helguvík

Lögreglan fylgist með framkvæmdasvæðinu þar sem félagar í Saving Iceland …
Lögreglan fylgist með framkvæmdasvæðinu þar sem félagar í Saving Iceland stóðu fyrir mótmælum í dag. mbl.is/Hilmar Bragi

Einn mótmælandi samtakanna Saving Iceland var handtekinn í Helguvík í dag.  Að sögn Skúla Jónssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á Suðurnesjum, var sá einstaklingur einn af þeim sem höfuð læst sig við vinnuvélar á svæðinu og var hann handtekinn eftir að hann neitaði að segja til nafns.

Mótmælaaðgerðum í Helguvík lauk um hálf fjögur leytið að sögn Skúla en um 40 einstaklingar frá 10 löndum stöðvuðu vinnu við fyrirhugað álver klukkan tíu í morgun og læsti hluti hópsins sig við vinnuvélar og aðrir klifruðu upp í krana.

Skúli segir að lögregla muni nú fara yfir hvort ástæða sé til að gefa út ákæru á hendur fólkinu fyrir að hlýða ekki fyrirmælum.  „Fólkið braut lög með því að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu, en eftir að við áréttuðum fyrirmælin fór fólk að yfirgefa svæðið," segir Skúli og bætir við að lögregla hafi tekið niður nöfn á öllum mótmælendum.  

Rétt fyrir hádegi höfðu allir verkamenn sem komu til vinnu í morgun yfirgefið svæðið.  Skúli segir að unnið sé að því að girða vinnusvæðið af og að á þriðja tug stórra vinnuvéla séu þar og því sé mikilvægt að enginn slasist.  Því hafi verktaki sem vinnur fyrir Norðurál ákveðið að stöðva vinnu í dag.

Saving Iceland setti upp búðir á Hellisheiði um síðustu helgi. Samtökin segja aðgerðunum í Helguvík vera ætlað að vekja athygli á eyðileggingu jarðhitasvæða á suð-vestur horni landsins og mannréttinda- og umhverfisbrotum Century í Afríku og á Jamaíka.

Fólkið klifraði m.a. upp í byggingarkrana.
Fólkið klifraði m.a. upp í byggingarkrana. vf.is/Hilmar Bragi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert