Þorgerður Katrín íhugar að fara aftur út

Þorgerður Katrín í Peking ásamt Ólafi Rafnssyni, forseta ÍSÍ, og …
Þorgerður Katrín í Peking ásamt Ólafi Rafnssyni, forseta ÍSÍ, og eiginmanni sínum, Kristjáni Arasyni. mbl.is/Brynjar Gauti

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra íþróttamála, segir íslenska landsliðið í handknattleik hafa staðið sig stórkostlega á Ólympíuleikunum í Peking, en liðið komst í morgun í undanúrslit mótsins. Þorgerður Katrín, sem er nýkomin heim frá Peking, íhugar nú að fljúga aftur út til að vera viðstödd næstu leiki liðsins.

„Liðið sýndi sterkan karakter og þetta eru einfaldlega strákarnir okkar sem við höfum stutt í blíðu og stríðu. Nú er blíða, og við skulum njóta hennar,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is. 

„Þeir hafa átt stórkostlega leiki á þessu sterka og erfiða móti sem Ólympíuleikarnir eru,“ segir hún og bætir við að fólk verði að gera sér grein fyrir þeim afrekum sem íslenska landsliðið sé að vinna í Peking fyrir land og þjóð. Staðan sé einfaldlega þannig að Íslendingar séu að fara spila um verðlaun.

„Þetta er ein besta liðsheild sem ég hef séð, og nú er ég búin að fylgjast með handboltalandsliðinu í áratugi, og fylgja þeim eftir á stórmótum.“

Aðspurð segist hún efast um að það verði unnið í menntamálaráðuneytinu í hádeginu á föstudag, þegar Ísland keppir annað hvort á móti Spánverjum eða Suður-Kóreumönnum.  Hún segist vera að íhuga það að fara aftur til Kína, enda hafi hún lofað Ólafi Stefánssyni, þegar hún var að kveðja liðið í Peking, að hún myndi snúa aftur kæmist liðið í undanúrslit.

„Sem yfirmaður íþróttamála finnst mér eðlilegt að maður fylgi þeim eftir, og það er bara hlutur sem ég er að skoða,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fylgdist með leik „strákanna okkar“ …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fylgdist með leik „strákanna okkar“ í Peking í dag, en hér sést hann gefa Sverre Jakobssyni hnefaknús í leikslok. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert