Ökumenn óku framhjá slysstað

Ungur karlmaður beið bana í slysi í botni Mjóafjarðar í Ísafjarðardjúpi um miðjan dag í gær. Maðurinn missti stjórn á litlum jeppling sínum með þeim afleiðingum að hann hafnaði úti í á. Farþegi, ung kona, komst af sjálfsdáðum út úr bifreiðinni, en tveir ökumenn óku framhjá henni. Tildrögin eru til nánari rannsóknar lögreglu á Ísafirði.

Veður var vont á þessum tíma, rigning og afar hvasst. Svo virðist sem maðurinn hafi ekki náð að beygja inn á brú í botni fjarðarins, og var bifreiðinni ekið á brúarstólpa og hentist hún í kjölfarið út í ána. Bifreiðin lenti á hvolfi ofan í ánni.

Látinn þegar aðstoð barst

Konan náði að komast út úr jepplingnum og á þurrt land. Hún reyndi að stöðva bíla sem óku framhjá. Tveir ökumenn keyrðu framhjá vettvangi án þess að stöðva samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar. Ökumaðurinn virðist hafa fengið töluvert högg en hann komst ekki út úr bílnum og var látinn þegar vegfarendur komu að og til hjálpar.

Slökkvilið Ísafjarðar var kallað út til aðstoðar og einnig Slökkvilið Hólmavíkur. Þegar slökkviliðsmenn frá Ísafirði komu á vettvang var búið að ná manninum út úr bílnum. Bíllinn var síðar hífður upp úr ánni.

Maðurinn var búsettur á Ísafirði. Ekki er unnt að birta nafn hins látna að svo stöddu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert