Kínverjarnir farnir úr landi

Lögreglurannsókn á mansali á veitingastaðnum Kínamúrnum er lokið.  Málið hefur verið sent ákærusviði lögreglunnar sem tekur ákvörðun um framhaldið. Naustið stendur autt  eftir að veitingahúsið fór á hausinn og veitingamennirnir eru farnir úr landi.

Matvís taldi málið hið versta sinnar tegundar. Sigurður Jónsson starfsmaður Matvís segir að sumir kínverskir starfsmenn hafi ekki fengið nein laun nema kannski vasapeninga.  Á meðan greiddi staðurinn öll launatengd gjöld sem varð til þess að viðvörunarljósin kviknuðu seinna en ella. Launakröfur uppá tugi milljóna hafa verið gerðar í þrotabúið.

Verktakar nota nú hluta Naustsins sem kaffistofu en þeir vinna á vegum eigendanna. Samkvæmt heimildum fréttastofu skulduðu kínversku veitingamennirnir umtalsverðar fjárhæðir í leigu.

Naustið hafði algera sérstöðu meðal íslenskra veitingahúsa vegna gamalla innréttinga sem höfðu verið nær óbreyttar frá stofnun en í hana höfðu verið notaðir sögulegir hlutir úr gömlum skipum eða tengdir sjómennsku og básarnir á staðnum hétu eftir gömlum Kútterum. Sjálft var húsið reist 1882 en götumyndin er friðuð.  Fyrir rúmu ári var öllum gömlu innréttingunum komið fyrir í geymslu eða þær lánaðar annað, til að rýma fyrir nýjum kínverskum innréttingum. Nú er draumurinn búinn.  Halla Bogadóttir kaupmann segir útlit hússins nú sorglegan vitnisburð um hvernig Íslendingar fari með menningarverðmæti. Útlendingar sem komi í búðina til hennar hafi haft orð á því að þetta yrði hvergi látið viðgangast annars staðar.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert