Tilraunin tekur nokkur ár

Vísindamenn í höfuðstöðvum CERN í Genf fylgjast með tölvuskjám í …
Vísindamenn í höfuðstöðvum CERN í Genf fylgjast með tölvuskjám í morgun. Reuters

„Það var alveg troðið þarna og mikið klappað þegar fyrsti geislinn var dreginn inn í hraðalinn," sagði Sveinn Ólafsson eðlisfræðingur og vísindamaður við Háskóla Íslands. Hann hefur dvalið í CERN, Evrópsku rannsóknamiðstöðinni í öreindafræði í Genf, undanfarna viku.

Þar hófst í morgun gangsetning LHC, stærsta öreindasteðja eða hraðals í Evrópu, eftir áratuga bið. Í hraðlinum á m.a. að framkalla árekstra öreinda og líkja eftir ástandi sem talið er hafa myndast örstundu eftir Miklahvell.


Með Sveini í Genf eru Haraldur P. Gunnlaugsson prófessor í Árósum í Danmörku, sem m.a. hefur unnið við ómannaða Mars-Phoenix geimfarið, og Torben Mølholt doktorsnemi úr Háskóla Íslands. Þeir hafa unnið að ísótópatilraunum í tilraunastofu sem heitir Isolde. Sveinn sagði að þegar þeir komu í CERN hafi lítið verið um að vera en síðan hafi fjölgað ört og vísindamenn streymt hvaðanæva að úr heiminum.


Tilraunin sem hófst í morgun tekur nokkur ár, að sögn Sveins. Í morgun var byrjað að draga geislann eftir LHC öreindasteðjanum, eða hraðlinum. Hann var dreginn áfanga eftir áfanga, þar til heilum hring var náð og tókst það á 45 mínútum. Um er að ræða tvo hringi í gagnstæðar áttir og þegar búið er með fyrri hringinn er tekið til við þann seinni. Þegar það er búið verður farið að skerpa geislann og gera hann örmjóan. Þá fyrst verður hraðallinn gangsettur. Þegar orkan er aukin getur geislinn skekkst og þá þarf að endurstilla hann. Sveinn sagði gert ráð fyrir að það taki nokkrar vikur eða mánuði að fínstilla geislann í hámarksorku.
 

Haraldur P. Gunnlaugsson (t.v.) og Sveinn Ólafsson í tilraunastofunni í …
Haraldur P. Gunnlaugsson (t.v.) og Sveinn Ólafsson í tilraunastofunni í Genf.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert