Allar forsendur brostnar

Una Særún Jóhannsdóttir
Una Særún Jóhannsdóttir mbl.is

Lækkun gengis íslensku krónunnar kemur illa við íslenska námsmenn erlendis, eins og fleiri. Sumarhýran ódrýgist eins og spariféð og fyrirframgreiddu námslánin, þegar peningarnir eru notaðir erlendis.

Garðar Stefánsson, formaður SÍNE, segir að margir eigi í erfiðleikum með að láta endana ná saman. „Fólk er virkilega að herða sultarólina og reyna að afla aukatekna,“ segir hann.

Um þrjú þúsund íslenskir nemar erlendis fá námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, tæplega helmingur þeirra í Danmörku. Námslánin eru greidd eftir á. Þau eru í flestum tilvikum reiknuð út í gjaldmiðli viðkomandi lands og á því gengi sem þá gildir. Fyrirgreiðsla bankanna út á væntanleg námslán miðast hins vegar við námsáætlun og gengið eins og það var á þeim tíma. Með þeirri niðursveiflu sem orðið hefur á krónunni fæst mun minni gjaldeyrir fyrir íslensku peningana, hvort sem þeir koma úr sparisjóðsbókinni eða sem lán úr banka. Þetta getur jafnast út þegar lánin koma, en fer þá auðvitað eftir stöðu gjaldmiðlanna þá.

„Við vorum búin að safna fyrir árinu með vinnu heima. Núna er allt orðið gjörbreytt, allar forsendur brostnar,“ segir Una Særún Jóhannsdóttir í Stokkhólmi. Hún er nemandi við Háskóla Íslands en tekur lokaárið við lagadeild Stokkhólmsháskóla. Hún fór út í haust ásamt manni og litlu barni.

Una lætur þess getið að leigan hafi hækkað um 25 þúsund á mánuði, frá því þau gerðu áætlanir sínar í júní, og hækki á hverjum degi með falli íslensku krónunnar. Matarkarfan hafi hækkum um 3 - 4 þúsund á viku og bleiupakkinn hafi hækkað um 300 krónur á þessum stutta tíma. Hún fær námslán sem skiptinemi og þau verða reiknuð á genginu eins og það var þegar hún sótti um.

„Hægt er að líkja þessu við að horfa á peningana sína brenna upp og sjá ekkert nema reykinn,“ segir Magnús Gestsson sem er í doktorsnámi í safnfræði í Leicester í Englandi.

Magnús er á lokasprettinum í námi sínu, reiknar með að klára í lok október. Hann segist hafa lifað af sparifé sínu sem samkvæmt áætlunum hafi átt að duga til áramóta. Þótt aðhaldið hafi verið aukið hafi það ekki dugað og nú segist hann lifa á láni frá nánum fjölskyldumeðlim.

„Ég er einstæður faðir og er með sautján ára dóttur mína hjá mér. Það er svo komið að við verðum að neita okkur um það að fara í þær búðir sem við erum vön, verðum að versla í Aldi þar sem ódýrast er að versla en það hækkar allt þar líka. Við reynum að nota eins lítið af rafmagni og gasi og mögulegt er. Nú er farið að kólna hérna. Það er vissulega hægt að fara í flíspeysur og lopapeysur og vefja sig í teppi, en hvaða lífsgæði eru það?“ segir Magnús.


Magnús Gestsson
Magnús Gestsson mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert