Borgin kynnir aðgerðaráætlun

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur.

Borgarstjórn Reykjavíkur mun á fundi borgarstjórnar kl. 14 í dag kynna nýja aðgerðaráætlun sem miðar að því að tryggja grunnþjónustuna í borginni, ná alt að 15% sparnaði í innkaupum borgarinnar og tryggja að ekki verði framkvæmdastopp hjá borginni.

„Við teljum að þetta séu mjög sterk og góð skilaboð sem við erum að gefa inn í samfélagið á þessum tímamótum,“ segir Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins. Minnir hann á að í málefnasamningi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafi verið lögð á það áhersla að gerð yrði sérstök aðgerðaráætlun vegna breytinga í atvinnu- og efnahagsumhverfi.

„Við erum búin að vinna að því allar götur síðan og buðum minnihlutanum í borginni að taka þátt í þessu starfi sem þeir hafa gert. Þannig að þetta er í rauninni þverpólitísk niðurstaða sem við erum að kynna,“ segir Óskar og tekur fram að hann geri sökum þessa ráð fyrir því að aðgerðaráætlunin verði samþykkt samhljóða af öllum borgarfulltrúum á fundinum. 

Aðspurður hvað aðgerðaráætlunin feli í sér segir Óskar: „Hún snýr að því að við ætlum að tryggja það að ekki verði skorið niður í grunnþjónustu Reykjavíkurborgar að svo stöddu. Fólki verður ekki sagt upp störfum, en við munum hins vegar halda að okur höndum í nýráðningum auk þess sem við munum gæta aðhalds og sparnaðar,“ segir Óskar og tekur fram að lausafjárstaða borgarinnar sé sterk eftir sem áður.

„Við látum öll svið borgarinnar mæta þeim verðlagsbreytingum sem orðið hafa á árinu 2008 með aukinni hagræðingu í rekstri. Á þeirri aðgerð einni spörum við 2,2 milljarða króna. “ 

Að sögn Óskars lýtur aðgerðaráætlunin fyrst og fremst að því hvernig borgaryfirvöld ætli að bregðast við núna sem og út árið 2008, en jafnframt verði hún upptaktur að því hvernig menn ætli að vinna fjárhagsáætlunina fyrir árið 2009. Spurður hvort borgarbúar megi búast við frekari  gjaldskrárhækkunum svarar Óskar því til að það verði alla vega engar hækkanir út þetta ár.

„Við munum haga fjárfestingarplaninu hjá okkur þannig að við munum endurskoða framkvæmdir sem kalla á aukinn rekstur borgarinnar og þannig ná fram sparnaði. Við viljum senda út þau skilaboð að það verði ekkert framkvæmdastopp hjá borginni, þó vissulega verði aðeins breyttar áherslur. Við munum þannig reyna að haga okkar framkvæmdum þannig að við munum einblína fremur á þær framkvæmdir sem eru að skila okkur tekjur í framtíðinni og eru mannaflsfrekar, til þess að koma þannig til móts við samdrátt í byggingariðnaði sem við stöndum frammi fyrir núna.“

Að sögn Óskar felst í aðgerðaráætluninni jafnframt tillaga um endurskoðun á öllum úthlutunarreglum borgarinnar á lóðum. „Það hefur verið mikil fækkun í eftirspurn eftir byggingalóðum. Allar úthlutunarreglum borgarinnar verða endurskoðaðar með það að markmiði að laða fólk til okkar,“ segir Óskar og vísar þar til bæði lóðaverðs og greiðslukjara.

Óskar Bergsson
Óskar Bergsson mbl.is/Billi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert