Alger óvissa um fjárveitingar til HÍ

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands mbl.is/Kristinn

Alger óvissa ríkir um fjárveitingar til Háskóla Íslands. Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, segir við vefinn student.is, að í fjárlagafrumvarpinu hafi verið gert ráð fyrir að fjárveitingar til háskólans yrðu auknar verulega, en ekki sé vitað hvort við það verði staðið. Það hljóti þó að skýrast á næstu vikum.

Þá segir Kristín einnig ljóst, að styrktarsjóðir á vegum háskólans hafi tapað fé, en hversu mikið liggi ekki enn fyrir. Stærsti sjóðurinn er Eimskipafélagssjóðurinn sem meðal annars hefur styrkt doktorsnema. Kristín segir að allt kapp verði lagt á að standa við gefnar skuldbindingar en vonir standi einnig að hægt verði að veita nýja styrki.

Háskóli Íslands hefur ákveðið að opna fyrir umsóknir um nám á vorönn. Kristín segir að skólinn vilji gera það sem hann geti til að bregðast við efnahagskreppunni og gera fólki sem misst hefur vinnuna kleyft að hefja nám. Þær deildir, sem geti tekið við fleiri nemendum án þess að stofna til kostnaðar muni gera það. 

Student.is  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert