Erlendir ferðamenn bjarga vetrinum

Fjölgun erlendra ferðamanna leiðir til þess að engum verður sagt upp hjá Iceland Excursions Allrahanda í vetur. Forsvarsmenn félagsins segja þetta undirstrika mikilvægi öflugrar markaðssetningar ferðaþjónustunnar erlendis. Þá telja þeir mikilvægt að hvetja yfirvöld ferðamála til dáða í markaðs- og kynningarmálum.
 
Fastráðnir starfsmenn Iceland Excursions Allrahanda eru um 60 yfir vetramánuðina. Sumarstarfsmenn láta af störfum nú í nóvember en koma aftur til starfa í mars á næsta ári. Það er heldur lengra tímabil en verið hefur undanfarin ár, eftir því sem fram kemur í tilkynningu. Þar segir ennfremur að verkefnastaða félagsins í vetur sé góð og hafi farið verulega vaxandi undanfarin ár.

Iceland Excursions Allrahanda flytur yfir 55 þúsund farþega á ári, sem flestir eru erlendir ferðamenn.
 
Stjórnendur félagsins telja sóknarfæri til staðar vegna veikingar krónunnar og að aukning verði í komu ferðamanna til Íslands, ef rétt er haldið á spilunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert