Kjörumhverfi fyrir spillingu

Tryggvi Þór Herbertsson
Tryggvi Þór Herbertsson Mbl.is/ Kristinn

Gríðarlega mikilvægt er að allt ferlið sé gagnsætt í uppgjörinu sem fram fer í efnahagslífinu og að óháðir erlendir ráðgjafar verði notaðir, til að endurmóta nýtt kerfi og ganga frá í gamla kerfinu, að sögn Tryggva Þórs Herbertssonar, fyrrverandi efnahagsráðgjafa forsætisráðherra.

„Aðeins með þeim hætti verður þetta hafið yfir tortryggni og efasemdir. Umhverfið eins og það er núna er kjörið fyrir spillingu. Og Ísland er ekkert frábrugðið öðrum löndum að því leyti að á meðan moldviðrið geisar og blindar mönnum sýn eru miklar líkur á að einhverjir gangi á lagið, hvort sem það er til að vernda sína hagsmuni eða komast yfir skjótfenginn gróða.“

Hann segir í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins mikla eignatilfærslu í þjóðfélaginu og mikilvægt er að það ferli sé gagnsætt og sanngjarnt, að svo miklu leyti sem það sé hægt.

„Reynsla Finna af þessum gjörningum var ekki góð og enn ekki gróið um heilt vegna þess, til dæmis voru stórir hlutir í Nokia seldir úr landi fyrir óverulegar upphæðir, þannig að mikið af þeim gríðarlega ábata sem varð síðar af Nokia skilaði sér ekki heim.“

Hann segir að í svona ferli sé þó erfitt að gera allt fyrir opnum dyrum. „Þess vegna er mjög mikilvægt að efla trú fólks á ferlið sjálft. Og það er gert með því að fá til þess óháða erlenda ráðgjafa sem ekki eiga neinna hagsmuna að gæta og að hafa ferlið gagnsætt. Það að segja nákvæmlega frá öllu sem gerist á hverjum tímapunkti myndi hins vegar æra óstöðugan, auk þess sem það gæti spillt fyrir gangi mála. Í svona darraðardansi breytast oft ákvarðanir frá klukkustund til klukkustundar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert