Stoltenberg ræddi um Ísland við Brown

Gordon Brown og Jens Stoltenberg utan við Downingstræti 10 í …
Gordon Brown og Jens Stoltenberg utan við Downingstræti 10 í dag. Reuters

Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, tók málefni Íslands upp við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, þegar þeir áttu fund í Downingstræti í Lundúnum í kvöld. Sagði Stoltenberg að það gæti haft mjög alvarlega afleiðingar fyrir Ísland ef aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fær ekki samþykki í stjórn sjóðsins fljótlega.

Ég sagði við hann, að ég voni að það takist á komast að samkomulagi og finna lausn," hefur norska fréttastofan NTB eftir Stoltenberg.

Hann segir að það sé engin launung á því, að það liggi á að hleypa af stokkunum áætlun sjóðsins vegna Íslands en gert er ráð fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn láni Íslandi 2,1 milljarð dala og aðrar þjóðir láni um 4 milljarða dala. 

„Takist þetta ekki er staðan mjög alvarleg. Áætlunin hefði þegar átt að hafa tekið gildi," segir Stoltenberg.

Fullyrt hefur verið að Bretar og Hollendingar og hugsanlega Þjóðverjar vilji að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins afgreiði ekki mál Íslands fyrr en niðurstaða hefur fengist í deilu um hugsanlegar ábyrgðir íslenskra stjórnvalda á innistæðum á reikningum íslensku bankanna í útlöndum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert