Þrjú þúsund báðu um breytt bílalán

Rax

Þrjú þúsund manns hafa beðið um breytingu á greiðslu bílalána hjá Lýsingu frá því í október. 16 þúsund viðskiptavinir eru með 23 þúsund bílasamninga við Lýsingu. Á tveimur og hálfum degi tóku þjónustufulltrúar fyrirtækisins á móti 900 einstaklingum sem óskuðu eftir greiðslufresti fyrir nóvembermánuð.

Viðskiptavinir Lýsingar eru margir hverjir ringlaðir vegna tilmæla ríkisstjórnarinnar frá 22. október til ríkisbankanna og fjármálafyrirtækja. Þar var farið fram á að leyft verði að frysta erlend lán án sérstakrar greiðslu. Að hvorki verði krafist frekari trygginga né sérstakrar greiðslu. Þá að hægt verði að frysta lán „óháð efnahag“ viðskiptavina. Í tilkynningu viðskiptaráðuneytisins stóð: „Þess er vænst að önnur fjármálafyrirtæki veiti sömu fyrirgreiðslu.“

Lýsing fer hins vegar fram á 7000 króna greiðslu óski viðskiptavinir eftir því að fá að breyta greiðslum á samningstímanum. Þá biður það um samþykki ábyrgðamanns sé samningstími lána lengdur. Skilyrði fyrir greiðslubreytingu er að allir útgefnir greiðsluseðlar séu greiddir.

Sævar Bjarnason, framkvæmdastjóri á einstaklingssviði Lýsingar, segir fyrirtækið eins og önnur reyna að halda sjó í efnahagskreppunni. „Við erum ekki ríkisbanki. Við höfum ekki ríkisábyrgð eins og samkeppnisaðilarnir og verðum því að gæta þess að standa í skilum við okkar lánadrottna.“

Hann bendir á að ekki sé krafist ábyrðamanns á öll lánin heldur sé hann með í ráðum við breytingar á samningi þar sem þeir eru fyrir. Þá hafi gjaldið vegna breyttra samninga verið 10 þúsund en ákveðið hafi verið að lækka það í 7 þúsund krónur. „Upphæðin deilist niður séu menn með tvo bíla.“ Hann segir miklu skipta að viðskiptavinir fari yfir stöðuna á samningi sínum með Lýsingu. Mikilvægt sé að fólk fresti ekki afborgunum nema að þurfa á því að halda.

Sævar segir að þar sem fyrirtækið þurfi sjálft að standa í skilum hafi það ákveðið að finna leið sem henti bæði því og viðskiptavinum. „Það er ekki mikið um fjármagn í dag og því þurfum við að fá inn fyrir kröfunum. Við vinnum með viðskiptavinunum enda þjónustufyrirtæki sem þarf að standa sig.“ Viðskiptavinum sé boðið að greiða helming höfuðstólsins í þrjá mánuði. Eftir þann tíma er gert ráð fyrir að þeir greiði fulla greiðslu.

„En það er langt í það og vonandi verður ástandið þá á þeim nótum að hægt verði að vera með mannsæmandi forsendur. Vinnuumhverfi fyrirtækja og heimila er óþolandi í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert