Lengi getur vont versnað

„Af því að það er dagur íslenskrar tungu þá mundi ég nú nota önnur orð en lausn um þessa niðurstöðu. Ég man eftir gagnsæjum, skýrum íslenskum orðum, sem heita uppgjöf, ósigur, tap. Þau koma mér fyrr  í hug heldur en lausn þegar þetta er kynnt. Ég hef vonda tilfinningu fyrir þessu og ég segi bara lengi getur vont versnað í því hvernig ríkisstjórnin heldur á þessum málum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG um lausn Icesave-deilunnar sem ríkisstjórnin kynnti í kvöld.

Steingrímur segir að sú martröð sem hann óttaðist frá byrjun, sé nú að ganga eftir.

„Þegar málin voru sett í þetta IMF-ferli þá sagði ég, og kunnu ýmsir mér litlar þakkir fyrir, að menn væru að lenda með þessi mál inn í mjög hættulegan farveg, hefðu engin önnur úrræði eða reyndu að hafa önnur spil á hendi. Ég sagði líka að það væri baneitruð tenging á bakvið í umsóknarferlinu, yfir í þessi óútkljáðu deilumál við Breta, hollendinga og fleiri. Nú höfum við það skjalfest,“ segir Steingrímur.

„Þá hefur Evrópusambandið blygðunarlaust, notað umsókn okkar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til að pína okkur til uppgjafar í þessu máli,“ segir Steingrímur en uppgjöfin felst í afsali Íslendinga á því að fá lögformlega niðurstöðu í það, hverjar ábyrgðir og þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslendinga eru í þessu máli.

„ESB er að pína okkur til pólitískrar niðurstöðu, því það vill ekki láta reyna á það hver okkar ábyrgð er, það vill ekki einu sinni að málin fari í slíkt ferli því að þeir telja að það ruggi bátnum. Og þá eru þeir að sjálfsögðu með í huga hagsmuni allra innstæðutrygginga á Evrópusvæðinu. Þar með erum við að semja frá okkur rétt okkar til þess að fá lögformlega niðurstöðu í málið, sem ég tel að við höfum bara ekkert leyfi til að gera.“

Steingrímur segist óttast að Íslendingar verði í mjög veikri eða svo gott sem engri samningsstöðu í framhaldinu. Ríkisstjórnin hafi í raun og veru gengist undir tvíþætta þvingunarskilmála.

„Annars vegar þvingunarskilmála Evrópusambandsins og hins vegar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég tel að ríkisstjórnin hafi ákaflega takmarkað umboð til að gera þetta og ég er, svo vægt sé til orða tekið, ósáttur við samskiptin við ríkisstjórnina um þetta mál. Þetta er ekki í þeim farvegi sem ég get sætt mig við og ég tek þessu mjög þunglega, hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessu máli.“

Steingrímur segir það ekki öfundsvert hlutskipti ráðherra í ríkisstjórninni að ætla að undirrita víxla bæði vestan hafs og austan sem muni verða gríðarlegar byrðar, jafnvel ófæddra kynslóða Íslendinga. Búið sé að skuldsetja þjóðarbúið upp í rjáfur.

Steingrímur segist uggandi vegna þeirra samninga sem í hönd eiga að fara.

„Ég held nú að reynslan af Evrópusambandinu í heild og ekki síst Breta undanfarna sólarhringa og vikur, sé nú ekki beinlínis slík að hún auki manni bjartsýni á að sanngirni verði sýnd í komandi viðræðum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka